138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Sú var tíðin að Ísland var talið sérstakt efnahagsundur, fyrirmyndarríki frjálshyggju, skattalækkana og einkavæðingar. Óheft frelsi markaðarins var boðorð dagsins. Ríkisafskipti boðorð gærdagsins. Í hinni björtu veröld frjálshyggjunnar taka einstaklingar á markaði ávallt skynsamlegar ákvarðanir, ríkisvaldið ávallt verri ákvarðanir. Forræðishyggja var bannorð dagsins.

Fjármálaráðherra Noregs lýsti fyrir nokkru ástandi mála á Íslandi sem afleiðingu af misheppnaðri frjálshyggjutilraun. Betri lýsing á stöðu mála hefur ekki fengist. Bankakerfið var einkavætt vildarvinum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og því leyft að vaxa stjórnlaust. Um leið rak sama ríkisstjórn galna efnahagsstefnu sem byggðist á gríðarlegum stóriðjuframkvæmdum, skattalækkunum, hærri húsnæðislánum og þenslu í nafni góðæris. Afleiðingin var fyrirsjáanleg. Hátt vaxtastig, röng gengisskráning og meiri viðskiptahalli en sést hefur á byggðu bóli. Góðærið var ein risastór blaðra sem fyrr eða síðar hlaut að springa. Að hvellurinn yrði algert hrun íslenska bankakerfisins grunaði fáa þótt ekki skorti aðvaranir erlendis frá.

Eftir hrun hafa innviðir fjármálakerfisins orðið okkur ljósari þó að enn sé þar ýmislegt á huldu. Íslenska fjármálakerfið var í raun svo veikburða og áhættusækið að mikil hætta á bankakreppu var við minnstu niðursveiflu í efnahagsmálum. Finnski bankasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri orðaði það svo að einungis hafi verið tímaspursmál hvenær bankakreppa hefði orðið á Íslandi.

Ofþenslu í efnahagsmálum fylgdi ofþensla í sjálfsmynd þjóðarinnar. Dramb er falli næst. Útrásinni fylgdi lífleg umræða um eðli þjóðarinnar, mannkosti hennar, áræðni og jafnvel yfirburði. Fjölmiðlar og ráðamenn fóru mikinn. Viðskiptaráð taldi okkur yfir önnur Norðurlönd hafin, þangað hefðum við ekkert að sækja lengur. Forseti lýðveldisins fór mikinn í lýsingum sínum á íslenska viðskiptamódelinu, módeli sem erlendir viðskiptaháskólar ættu enn eftir að uppgötva. Evrópusambandið var haft í flimtingum enda hefði efnahagsundrið Ísland ekkert þangað að sækja. Allt var betra á Íslandi. Þegar erlendir sérfræðingar og stofnanir gagnrýndu bankakerfið var því oftar en ekki svarað með skætingi og ásökunum um öfund og þekkingarleysi.

Ein af skuggahliðum þensluáranna var vaxandi ójöfnuður í íslensku samfélagi. Í þessu efni var íslenskt samfélag á sama ferðalagi og Bandaríki Georges Bush, hinu fyrirheitna landi frjálshyggjunnar. Í Bandaríkjunum var ójöfnuður fyrir kreppuna á síðasta ári, árinu 2008, sá mesti síðan 1929 og hafði vaxið hröðum skrefum á síðustu árum. Á Íslandi hafði aukin markaðshyggja leitt til vaxandi tekjumunar. Forstjóradýrkun og ofurlaunastefna, ekki síst í boði bankanna, hafði spillandi áhrif á samfélagsgerðina. Í stað þess að vinna gegn þessari þróun hellti ríkisvaldið olíu á eldinn með skatta- og bótastefnu sinni. Hinir ríku greiddu hlutfallslega minni skatta en áður en þeir efnaminni sífellt meira. Hrun íslensku bankanna var einnig hrun þessa viðhorfs til réttlætis í tekjudreifingu samfélagsins.

Virðulegi forseti. Þegar hrun íslensk fjármálakerfis blasti við voru sett neyðarlög en í raun hefði þurft að grípa til neyðarráðstafana löngu fyrr. Verkefnið var íslenska ríkinu ofviða. Við íslenskum almenningi blasti neyðarástand í fjármálum þjóðarinnar. Það blasti einnig við að enginn var tilbúinn að axla ábyrgð á þessu neyðarástandi. Ekki benda á mig, söng sameiginlegur kór þeirra sem ábyrgð báru. Allir bentu á einhverja aðra og helst til útlanda. Þetta ástand þarf ekki að koma á óvart en er óviðunandi í lýðræðisþjóðfélagi. Almenningur getur ekki sætt sig við kerfishrun án ábyrgðarmanna og engin ástæða til slíks.

Enginn einn einstaklingur eða stofnun ber ábyrgð á bankahruninu. Hér beinast spjótin að mörgum. Mestu ábyrgðina bera að sjálfsögðu stjórnendur, bankaráð og stærstu hluthafar gömlu bankanna. Þeirra ákvarðanir, ekki síst óhófleg áhættusækni, voru grundvöllur ofþenslu og síðar hruns bankanna. Ábyrgð þessa fólks er mikil en viljinn til að viðurkenna hana virðist því miður lítill. Það sama gildir um eftirlitsstofnanir ríkisins, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið. Almenningur getur eðlilega sagt að viðskiptabankanir hafi ekki starfað í þeirra umboði en það gerðu stofnanir ríkisins óumdeilanlega. Þegar í ljós kom að þessar stofnanir voru ekki vandanum vaxnar og höfðu brugðist hlutverki sínu blasti við að skipta þyrfti um stjórnendur þeirra. Þetta sjálfsagða verkefni var þó stjórnvöldum ofviða. Ríkisstjórn Geirs Haardes tókst hvorki að endurnýja sjálfa sig né þær stofnanir sem hún bar ábyrgð á.

Samhliða hruni bankanna braust út ein erfiðasta milliríkjadeila í sögu lýðveldisins. Icesave-deilan er enn óleyst og stendur jafnt eðlilegum samskiptum Íslands við umheiminn og uppbyggingarstarfi innan lands fyrir þrifum. Við lausn á þessu vandamáli takast á, og hafa tekist á frá hruni, tvö sjónarmið. Annars vegar einangrunarhyggja sem felst í því að neita að greiða skuldir óreiðumanna erlendis og loka landinu og hins vegar að leita sátta við hið alþjóðlega samfélag og fá aðstoð þess við uppbyggingu landsins að nýju. Fyrri kosturinn nærist á heilagri reiði vegna óljósra reglna Evrópusambandsins og ranginda breska ríkisins en þá gleymist ábyrgð Íslendinga sjálfra. Hættan við þetta viðhorf blasir við. Að breyta Íslandi í Serbíu norðursins uppfullu af þjóðarstolti en efnahagslega einangruðu er ekki vænleg leið til uppbyggingar atvinnulífs í landinu.

Virðulegi forseti. Fyrir almenning í landinu eru afleiðingar bankahrunsins ljósar. Atvinnuleysi, skuldir og verri lífskjör. Við slíkt er erfitt að sætta sig, ekki síst þegar enginn hefur borið raunverulega ábyrgð á hruninu eða verið sóttur til saka. Þó að einstaka auðmenn séu nú gjaldþrota hanga margir á fyrirtækjum sínu eins og hundur á roði. Réttarríkið er hér í nokkrum vanda, rannsókn hrunsins er tímafrek og reynir á þolrif almennings.

Rannsóknarnefnd Alþingis skilar brátt skýrslu sinni. Þessarar skýrslu er beðið með nokkurri eftirvæntingu á Alþingi sem annars staðar í samfélaginu. Það er einnig ljóst að skýrslan er ekkert einkamál Íslendinga og erlendir aðilar líta á starf nefndarinnar sem prófstein á getu Íslendinga til að rannsaka hrunið og aðdraganda þess. Hvernig Alþingi fjallar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar er einnig prófsteinn á getu þingsins til að fjalla um aðdraganda hrunsins. Um þetta verða þingmenn að ræða næstu daga og vikur enda veita lögin um rannsóknarnefndina litla leiðsögn í þessu efni. Hér hlýtur að koma til álita að Alþingi setji á stofn sérstaka nefnd þingmanna til að fjalla um skýrslu nefndarinnar og gera tillögur um næstu skref.

Frú forseti. Samhliða umræðu um meðferð á niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar þurfum við hv. þingmenn að róa lífróður til að ganga frá ríkisábyrgð vegna Icesave svo við getum haldið fram endurreisnarstarfinu í samræmi við áætlun stjórnvalda, afgreitt fjárlögin og tryggt aðkomu erlendra kröfuhafa að bönkunum og skapað þannig forsendur fyrir uppbyggingu atvinnulífsins og treyst stoðir velferðarríkisins. Við þurfum að sýna kjark til að takast á við sársaukafullt verkefni. Ef við gerum það ekki er hætta á enn alvarlegri efnahagsaðstæðum. Ég hafna því að við kennum útlendingum og hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra um og hvet þingmenn til að sýna kjark og takast á við vandann en hætta afneitun sem byggist á þrætubókarlist og skorti á sjálfsvirðingu.