138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í umræðunni í dag eru mismunandi áherslur og túlkanir á ástæðum hrunsins og hvernig endurreisninni skuli háttað. Stutta útgáfan af ástæðum hrunsins er sú að stjórnvöld leyfðu frjálshyggjumönnum að leggja línurnar og varða leiðina sem leiddi okkur á þann stað sem við vorum fyrir ári síðan og erum enn að feta okkur frá. Stjórnvöld trúðu að auðmönnum væri treystandi fyrir hag þjóðarinnar og þegar merkin tóku að birtast um að ekki væri allt með felldu var lítið gert í því vegna þess að trúin var á að markaðurinn mundi leiðrétta sig sjálfur og það byrgði sýn. Þar var rangur póll tekinn í hæðina og okkur bar verulega af leið.

Menn tala um góðærið en það voru engin raunveruleg góð ár fyrir hrun. Hins vegar varð til blaðra sem menn kölluðu góðæri en hún sprakk með afleiðingum sem við þekkjum og öðrum sem nú ári síðar eru ófyrirséðar. Bankarnir urðu allt of stórir og okkar litli gjaldmiðill átti engan möguleika á að verja þá falli. Bindiskylda var í lágmarki og Seðlabankinn beitti ekki þeim ráðum sem hann hafði til að auka aðhaldið. Gallað regluverk, bæði íslenskt og evrópskt, veitti ekki heldur nauðsynlegt aðhald. Bankamenn veðsettu þjóðina alla án þess að láta vita eða spyrja leyfis. Aðgerðir Breta gegn okkur gerðu ástandið síðan enn erfiðara. Endurreisa þarf bankana eftir fallið og sjá til þess að störf þeirra verði skilvirk en þeir verða auðvitað minni en áður. Koma þarf í veg fyrir kerfisvillur sem ýta undir áhættusækni þeirra líkt og sérfræðingar OECD hafa bent á í nýútkominni skýrslu.

Endurreisn bankanna lítur senn dagsins ljós og það er mikilvægur hlekkur í endurreisn íslensks efnahagslífs. Ekkert ríki getur blómstrað eða unnið sig út úr efnahagskreppu án virks bankakerfis. Þannig er gott og ábyrgt bankakerfi ein af grunnstoðum endurreisnarinnar. Það voru þó ekki bara Íslendingar sem töpuðu fé á íslenska efnahagshruninu. 10.000 milljarðar af erlendum skuldum þjóðarbúsins hafa verið afskrifaðir. Af Icesave-reikningunum töpuðu einstaklingar, sveitarfélög og félagasamtök í Hollandi og Bretlandi verulegum fjárhæðum. Tap okkar Íslendinga er þó mest vegna þess að auk fjármuna glötuðum við góðum orðstír. Efnahagurinn hrundi og álit annarra þjóða og tiltrú einnig.

Þótt ég vilji horfa fram á veginn og leita lausna til framtíðar tel ég nauðsynlegt að rannsaka vel hvað gerðist í aðdraganda hrunsins, leita réttlætis og að við Íslendingar gerum upp hlutina með einhverjum hætti. Ekki er síður nauðsynlegt að fara í hið pólitíska uppgjör en sennilega verður að líða lengri tími fram að því uppgjöri. Ákveðin fjarlægð þarf að vera í þeim efnum svo allt sviðið sjáist nógu vel. Nú stöndum við þó í upphafi endurreisnarferlis þar sem mörg stór verkefni hafa verið unnin og drög lögð að öðrum. Verið er að gera nauðsynlegar aðgerðir í ríkisfjármálum og endurskoðun stendur yfir á peningastefnu. Unnið er að stöðugleika á vinnumarkaði og bættum samskiptum við aðrar þjóðir. Allt þetta þarf að vinna saman til að íslenskt efnahagslíf komist hratt upp úr þeirri lægð sem það er í nú. Verkefnið er stórt en það er alls ekki óvinnandi. Þau skref sem stigin hafa verið eru líkleg til að skila árangri og áætlað er að árið 2013 verði jafnvægi náð.

Nú fer fram hagræðing og sparnaður innan ráðuneyta sem og hjá stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins. Í þeirri vinnu er þjónusta og störf varðveitt eins og kostur er. Með þessu eru m.a. skapaðar aðstæður fyrir lækkun vaxta og að gjaldeyrishöft verði afnumin. Markmiðið er að við náum sem fyrst stöðugu gengi, verðtryggingar verði afnumdar og vextir lækki til muna. Þó er ljóst að önnur markmið, svo sem efnahagslegur stöðugleiki, bærileg skuldastaða þjóðarbúsins og jafnvægi í gjaldeyrismálum, nást ekki nema ríkisfjármálin verði komin á styrkan grundvöll. Segja má því að ríkisfjármálin séu mælikvarði á trúverðugleika efnahagsáætlunarinnar. Skuldastaða ríkisins hefur ráðið mestu um að valið hefur verið að fara eins hratt í aðlögunaraðgerðir og unnt er og forsvaranlegt er talið. Forsendur fyrir því fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram eru þó skýrsla fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013, stöðugleikasáttmálinn sem gerður var í sumar við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga og að verja kjör þeirra sem verst eru settir.

Ýmsir óttast að of bratt sé farið í niðurskurð á opinberri þjónustu. Opinber þjónusta er þess eðlis að hún beinist fyrst og fremst að þeim sem helst standa höllum fæti svo sem í heilbrigðiskerfinu og tryggingakerfinu og er stór hluti þeirra lífsgæða sem þeir njóta. Um er að ræða mikilvæga samfélagsuppbyggingu, svo sem í skólamálum, menntun og rannsóknum. Mikil skerðing á þessum sviðum getur því lagt óeðlilega mikinn þunga af afleiðingum kreppunnar á viðkvæma þjóðfélagshópa og skert kjör þeirra hlutfallslega meira en annarra eða tafið mikilvæga uppbyggingu til framtíðar. Ljóst er bæði frá félagslegum og hagfræðilegum sjónarmiðum að fara þarf með gát í niðurskurð opinberra útgjalda.

Samkvæmt stöðugleikasáttmálanum er gert ráð fyrir því að árið 2010 verði niðurskurður 55% eða 35 milljarðar og skattar 45% eða 28 milljarðar. Þegar skattareglur verða útfærðar verður að hafa í huga að jafnræði sé í skattlagningu, að skattbyrðin dreifist með sanngjörnum hætti, að hún hafi sem minnst áhrif á ákvarðanir um fjárfestingu og neyslu — og skattkerfið sé einfalt og gagnsætt. Einnig þarf skattkerfið að þjóna þeim markmiðum að jafna tekjudreifingu í þjóðfélaginu. Fjölgun starfa og aðgerðir til að greiða fyrir því að arðvænleg fyrirtæki vilji festa hér rætur ásamt stöðugleikasáttmálanum á vinnumarkaði eru lykilskref. Auk þess þarf að hvetja í auknum mæli til samvinnu háskóla og atvinnurekenda til að nýta rannsóknir til nýsköpunar. Nýsköpun í ríkisrekstri er ekki síst mikilvæg þar sem gera þarf meira fyrir minna fé. Unnið er eftir stöðugleikasáttmálanum og leggja þarf enn meiri áherslu á sameiginlegar aðgerðir fyrirtækja, ríkis og sveitarfélaga til að fjölga störfum. Markmiðið er að útrýma atvinnuleysi og auka tekjur ríkisins.

Samskipti Íslands við aðrar þjóðir eru einnig lykilþættir í endurreisnarferlinu. Stjórnvöld verða að semja um skuldbindingar Íslands vegna Icesave. Það er ekki umflúið og aðrir kostir munu aðeins leiða til enn meiri erfiðleika þjóðarinnar. Samkomulagið er mikilvæg forsenda í framgangi efnahagsáætlunarinnar. Samningarnir um Icesave-skuldbindingarnar eru nauðsynlegir vegna mats á lánshæfi bæði ríkissjóðs og fyrirtækja í landinu. Við þurfum að komast úr neikvæðu mati í mat sem gefur til kynna að hér ríki stöðugleiki. Ef vafi leikur á því að þjóð ætli að standa við skuldbindingar sínar skorar hún ekki hátt á lánshæfismati. Við þurfum lán til að við eigum gjaldeyrisvaraforða og gjaldeyrisvaraforðinn er nauðsynlegur m.a. til að matsfyrirtækin taki okkur úr neikvæðum horfum í stöðugar. Það auðveldar okkur aðgengi að ódýrara fjármagni og staðreyndin er sú að margir mega ekki lána okkur vegna neikvæðs lánshæfismats. Því fylgir einfaldlega of mikil áhætta að lána þjóð sem býr við slíkt. Að semja um Icesave-skuldbindingarnar er ekki umflúið og aðrir kostir leiða aðeins til meiri erfiðleika þjóðarinnar í formi kostnaðar vegna lægra gengis, lengri tímabilsgjaldeyrishafta og hærra vaxtaálags á erlend lán. Allt hefur þetta slæm áhrif á atvinnulíf, velferð þjóðarinnar og lífskjör.

Hrunið hefur grafið undan því trausti sem Íslendingar nutu í alþjóðlegu samstarfi og það traust verðum við að ávinna okkur að nýju. Umsókn um aðildarviðræður við Evrópusambandið gefur skýr skilaboð um hvert Íslendingar vilja stefna og á hvaða gildum þeir vilja byggja endurreisn efnahagslífsins. Markmiðið er að Ísland endurvinni traust og tiltrú annarra þjóða í viðskiptum og á öllum öðrum sviðum.

Virðulegi forseti. Nú þegar ár er liðið frá hruninu og fjölmiðlar rifja upp ástandið og þær tilfinningar sem það kallaði fram — mörg íslensk börn skynjuðu þá spennuna allt í kring og horfðu upp á foreldra sína og aðra aðstandendur áhyggjufulla og jafnvel óttaslegna. Nú er gott tækifæri til að ræða við börnin um þessa reynslu, létta af þeim áhyggjum af heimi fullorðinna og hlúa að fjölskyldulífi sem styrkir sjálfsmynd barna og unglinga. Óvissa og spenna í þjóðfélaginu eykur líkur á áhættuhegðun barna og unglinga. Nú er vinsælt að koma á nágrannagæslu þar sem menn gæta eigna hvers annars. Hvernig væri að við bættum við nágrannagæslu þar sem við gætum að börnum og unglingum og hefðum í huga sannleiksgildi þess að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn?