138. löggjafarþing — 3. fundur,  6. okt. 2009.

efnahagshrun og endurreisn, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er spurningin varðandi afstöðu frjálshyggjumanna til regluverks. Þeir eru þekktir fyrir að vilja hafa fáar reglur og skýrar. Ég held að vandinn í fjármálaheiminum hafi ekki verið sá að skort hafi reglur. Þegar menn skoða einmitt hvernig regluverkinu öllu saman var háttað getur enginn komist að þeirri niðurstöðu að það hafi vantað reglur. Það sem vantaði var miklu frekar að menn færu eftir þeim. Reglukerfið sem við Íslendingar bjuggum við er sama reglukerfi og gildir úti í okkar ágætu Evrópu. Við búum við sama regluverkið, við erum inni á þessum sameiginlega markaði og íslensku fjármálastofnanirnar búa í öllum megindráttum við sama regluverk og evrópskir bankar.

Af því að menn velta fyrir sér frjálshyggjunni, hvernig stendur á því að bankar eins og Northern Rock sem var á Bretlandi fór á hausinn? Írska bankakerfið var svo hörmulega illa statt að írska ríkið þurfti að grípa til þess óyndisúrræðis að tryggja ekki bara allar innstæður í írskum bönkum heldur allar skuldir allra írsku bankanna. Var það vegna þess, hv. þingmaður, að það eru bara brjálaðir frjálshyggjumenn á Írlandi eða er það vegna þess að það eru brjálaðir frjálshyggjumenn við völd í Ungverjalandi, Eystrasaltsríkjunum eða í þessum ríkjum þar sem bankakerfin hafa farið á hausinn? Austurríska bankakerfið riðar nú til falls og það sem verra er, sænska bankakerfið er í vandræðum. Þá er áhugavert að heyra þá skoðun hvernig stendur á því að á 10. áratug síðustu aldar lentu norrænu ríkin í gríðarlega mikilli bankakrísu sem var þeim mjög erfið. Hingað til lands kom Göran Persson sem þá var helsti leiðtogi Svía og leiddi þá gegnum þessa erfiðu kreppu. Hvernig skyldi standa á því að sú kreppa varð? Var það vegna þess að Svíar eru svo brjálaðir frjálshyggjumenn að þeir kunna ekki fótum sínum forráð (Forseti hringir.) eða var það vegna þess að ýmislegt í fjármálakerfi Evrópu og Norðurlandanna leiddi það því miður fram, rétt eins og gerðist 1907, (Forseti hringir.) 1929 og annars staðar og oftar í heiminum?