138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða Icesave-samningsins.

[13:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður spyr mig um stöðu Icesave-málsins og hvort ég geti svarað því að hér verði lagt fram frumvarp þar sem fallist verði á kröfur Hollendinga og Breta. Sjónarmið þeirra hafa legið fyrir frá því í sumarbyrjun. Sömuleiðis liggja alveg ljós fyrir þau sjónarmið sem Alþingi hefur fest í lög. Við vitum það líka, það hefur komið fram, ég hef t.d. ekki dregið þar undan, að viðbrögð Breta og Hollendinga eru með þeim hætti að mér hafa ekki hugnast þau.

Ég get ekki svarað hv. þingmanni alveg hreint út um hvort það sé öruggt að hér verði lagt fram einhvers konar frumvarp á næstu dögum eða vikum en mér þykir það hins vegar líklegt. Ég tel hins vegar að það sé ekki þannig, a.m.k. ekki eins og staðan er núna eins og ég þekki hana, að það sé líklegt eins og hv. þingmaður spyr mig, að íslenska ríkisstjórnin og þaðan af síður íslenska þingið fallist á öll þau viðhorf sem komið hafa fram hjá Hollendingum og Bretum, en það ætti ekki að koma hv. þingmanni á óvart.

Hv. þingmaður vék síðan að hinni pólitísku stöðu á Íslandi. Ég hef ekkert undan dregið varðandi það að það liggur alveg ljóst fyrir að Icesave-málinu hefur undið fram með þeim hætti að eins og t.d. kom fram í sumar hafði ríkisstjórnin ekki meiri hluta. Það liggur líka fyrir að einn tiltekinn ráðherra hefur sagt af sér að því er virðist beinlínis vegna þessa máls. Ég segi það bara hreinskilnislega, það liggur ekkert fyrir um það að ríkisstjórnin eða stjórnarliðið hafi endilega á þessari stundu meiri hluta fyrir því þingmáli sem kann hugsanlega að vera lagt fram enda gæti ég ekki lýst málinu. Hins vegar er ég ósammála hv. þingmanni um að þessi staða og hreinskilnislegar yfirlýsingar okkar ráðherra um það, hafi veikt stöðu Íslendinga út á við. Ég er honum algerlega ósammála um það og gæti skýrt það betur út fyrir honum á eftir.