138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða Icesave-samningsins.

[13:39]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra lýsti því réttilega að viðhorf Breta og Hollendinga lágu skýrt fyrir snemmsumars. Viðbrögð meiri hluta Alþingis lágu líka skýrt fyrir í lok ágúst. Þar var komist að niðurstöðu sem ekki voru allir sáttir við en engu að síður var þar um að ræða niðurstöðu Alþingis sem fól í sér skýr skilaboð til ríkisstjórnarinnar sem henni ber að fylgja eftir varðandi lyktir þessa máls. Það sem fólk bæði hér innan húss og úti í þjóðfélaginu spyr um er: Er ríkisstjórnin í samskiptum sínum við Hollendinga og Breta að gefa einhvern afslátt á þeirri niðurstöðu sem var niðurstaða þingsins í lok ágúst? Er ríkisstjórnin að tala við Hollendinga og Breta á einhverjum öðrum forsendum en Alþingi lagði með skýrum hætti upp í hendurnar á því þann 28. ágúst? Ef svo er, ætlar ríkisstjórnin að koma með slíkt mál fyrir þingið? Þetta er afar einföld spurning og ég virði það auðvitað við hæstv. utanríkisráðherra ef hann getur ekki svarað þessum einföldu spurningum. Við skiljum þá aðstöðu utanríkisráðherra að vera í ríkisstjórn sem er ekki starfhæf og getur þess vegna ekki komið með skýr svör við spurningum af þessu tagi, það er einfaldlega staðan. En hins vegar er ég alveg sannfærður um að trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar hefur beðið mikinn hnekki, bæði innan lands og utan og burt séð frá því hverjar þær ástæður eru, þær eru öllum kunnar, er þetta skaðleg staða. Þegar við þetta bætist fullkomin óvissa um það þegar ekki er hægt að segja þinginu frá því hver næstu skref verði í þessu Icesave-mái gerir það ekkert annað en að auka óvissuna, auka vandamálin og skaða trúverðugleikann enn þá frekar.