138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

skattlagning orkusölu.

[13:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki liðin vika síðan hér var lagt fram fjárlagafrumvarp þar sem gert er ráð fyrir því að leggja á svokallaða orkuskatta upp á 16 milljarða kr. Þess vegna verð ég að segja að það gladdi mig mjög að sjá að í Morgunblaðinu í morgun var sleginn nýr tónn af hálfu ríkisstjórnarinnar í viðtali við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem greindi frá því að gagnstætt stefnu ríkisstjórnarinnar í orku- og auðlindamálum væri hugmynd hans sú að lækka sérstaklega raforkuverð til fiskeldis. Það sýnir að hann hefur skilning á því að leiðin til þess út úr kreppunni er ekki skattlagning heldur að reyna að létta gjöldum af atvinnulífinu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Var honum kunnugt um þau áform áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram, þ.e. um 16 milljarða skattlagningu á orkusöluna í landinu? Gerði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra athugasemdir við þessi áform? Og ef svo er, hverjar þær athugasemdir hafa verið? Enn fremur vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hyggist styðja áform ríkisstjórnarinnar upp á 16 milljarða skattlagningu á orku sem augljóslega mun koma mjög harkalega niður á þeim atvinnuvegum sem hann ber eiginlega ábyrgð á, bæði sjávarútvegi og landbúnaði. Sjávarútvegurinn er einhver stærsti orkukaupandi landsins og margvíslegur búrekstur er auðvitað mjög háður orkuverðinu, og eðlilegast að nefna í því sambandi garðyrkjuna. Ég spyr hæstv. ráðherra, vegna þess að ég lít þannig á að með þessari yfirlýsingu í morgun hafi hann með stefnumarkandi hætti sett fram sjónarmið sín, hvort hann muni þá styðja þessi áform og hvernig hann sjái að hægt sé að útfæra þessa miklu skattlagningu öðruvísi en það komi niður á atvinnuvegum eins og sjávarútvegi og landbúnaði.