138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

skattlagning orkusölu.

[13:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er gamla sagan að þegar maður spyr hæstv. ráðherra koma engin svör heldur er farið að tala um allt aðra hluti. Ég var að spyrja um einfalt mál. Ég var að spyrja um með hvaða hætti hæstv. ráðherra hefði tekið á því þegar greint var frá því að ríkisstjórnin ætlaði að leggja á sérstakan 16 milljarða orkuskatt sem óhjákvæmilega kæmi niður á bæði sjávarútvegi og landbúnaði. Mér fannst sérstakt tilefni til að spyrja vegna þess að hæstv. ráðherra greindi frá því í morgun með stefnumarkandi yfirlýsingu að það ætti sérstaklega að lækka orkuverð til einnar atvinnugreinar fiskeldis og ég fagna því. En þetta gerir hæstv. ráðherra beint ofan í það að ríkisstjórnin sem hann situr í og styður stundum hefur lagt fram fjárlagafrumvarp sem felur í sér 16 milljarða hækkun á raforku. (Gripið fram í: Það er rangt.) Hæstv. ráðherra hefur greint frá því og sagt að búið sé að hækka rafmagnið svo og svo mikið frá því að raforkulögin voru sett. Nú telur ráðherrann greinilega ekki nægilega mikið að gert og vill hækka raforkuverð enn þá meira með því að leggja sérstök gjöld á þá sem nota raforkuna. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: (Gripið fram í.) Vissi hann af þessum áformum? Gerði hann athugasemdir? Ætlar hann að styðja ríkisstjórnina í þessari stefnumörkun?