138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

skattlagning orkusölu.

[14:01]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég heyri að það er viðkvæmt mál fyrir hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni að rifja það upp að hann studdi þau raforkulög sem innleidd voru og hafa í för með sér þá mismunun sem við verðum að þola gagnvart atvinnulífi, byggð og búsetu í landinu.

Varðandi það að leggja skatt á raforkuna, eins og hv. þingmaður minntist á, er það alveg rétt að það var kynnt í ríkisstjórn og ég vissi af því. Hins vegar á eftir að útfæra þessar tillögur eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur greint frá. Ég lagði á það áherslu að horft yrði til þess að þetta yrði ekki íþyngjandi fyrir atvinnu, byggð og búsetu úti á landi þar sem áhrif af svona löguðu margfaldast yfirleitt. Það er alveg hárrétt … (Gripið fram í.) Við stöndum hins vegar frammi fyrir því gati sem er á fjárlögum, því efnahagshruni sem er afleiðing stjórnarstefnu Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratug og það er ekki sársaukalaust að leysa þar úr. En ég vil standa vörð um atvinnulífið á landsbyggðinni (Forseti hringir.) og vil að þar njóti menn jafnræðis.