138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

greiðslujöfnunarvísitala.

[14:02]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langar að beina spurningu minni til hæstv. félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar, vegna nýkynntra tillagna hans um leiðréttingu á greiðslubyrði og aðlögun skulda.

Samkvæmt tillögum hæstv. ráðherra á að taka upp greiðslujöfnunarvísitölu til að reikna út mánaðarlegar greiðslur af verðtryggðum lánum. Getur hæstv. ráðherra upplýst hvenær talið sé að greiðslur samkvæmt þeirri aðferð verði orðnar jafnháar og greiðslur samkvæmt núverandi aðferð? Á hverju byggist það álit, þ.e. á hvaða spám um launaþróun og minnkun atvinnuleysis?

Nú gera tillögur hæstv. ráðherra ráð fyrir að lánstími verðtryggðra lána gæti að hámarki lengst um þrjú ár. Hefur verið reiknað út hve stór hluti lántakenda þurfi á einhverri lengingu lána að halda og hve stór hluti lánanna verður ekki greiddur upp í lok þriggja ára lánalengingarinnar?