138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

greiðslujöfnunarvísitala.

[14:03]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt að í tillögunum sem nú liggja fyrir og unnið er að að hrinda í framkvæmd felst að komið verði á kerfi þar sem greiðslubyrði verði löguð að greiðslugetu fólks þannig að greiðslubyrðin færist til tiltekinna viðmiða frá því fyrir hrun og taki þaðan í frá breytingum samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölu, sem er samsett úr launavísitölu og atvinnustigi. Meðan launaþróun er slök og atvinnuleysi umtalsvert borgi fólk minna og ekki komi til þess að fólk borgi meira fyrr en bilið þarna á milli hefur jafnast.

Það fer í sjálfu sér eftir því hvaða hagspár eru lagðar til grundvallar hvaða niðurstöðu menn fá í spár um það hvenær þessi munur jafnast. Ef við gefum okkur að hér verði alllöng dýfa til nokkurra ára fer eftir lengd hennar hversu líklegt er að komi til afskrifta í lok lánstíma. Ef dýfan verður stutt eru líkurnar minni, en alveg er ljóst að ef greiðslujöfnunin leiðir til lækkunar afborgana á næstu árum, um á milli 10 og 20% á ári, safnast á fimm árum langleiðina upp í eina heildarársafborgun sem ekki hefur verið greidd. Því lengur sem launaþróunin gefur ekki tilefni til þess að af þessari skuld sé greitt þeim (Forseti hringir.) mun meiri líkur eru á að til afskrifta komi í lok lánstímans.