138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:14]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns var alveg makalaus, þvílíkt og annað eins svartagallsraus hef ég ekki heyrt í langan tíma. Hér er unnið hörðum höndum að því að endurreisa íslenskt samfélag. Virðulegi forseti. Við getum verið sammála, ég og hv. þingmaður, um að við verðum að fá fjárfestingu inn í landið vegna þess að meginþungi endurreisnarinnar mun byggjast á verðmætasköpun. Um þetta erum við sammála og við eigum að haldast í hendur til þess að svo megi verða.

Í þessari umræðu vil ég leggja áherslu á þrjú lykilatriði:

Í fyrsta lagi eru endurnýjanlegar orkuauðlindir okkar mikilvægar aflvélar í endurreisn efnahagslífsins á næstu árum. Þær eru sérstaða okkar og sóknarfæri til að laða hingað erlenda fjárfestingu og stytta þannig samdráttarskeiðið og draga hratt úr óásættanlegu atvinnuleysi.

Í öðru lagi hef ég sem iðnaðarráðherra unnið að því að greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, eins og kveðið er á um í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila á vinnumarkaði. Við þann sáttmála verðum við að standa, ekki bara af efnahagslegri nauðsyn heldur einnig af virðingu við þær fórnir sem launafólk hefur samþykkt að færa í þágu stöðugleikans, t.d. með því að fresta lögvörðum launahækkunum.

Í þriðja lagi vinnum við í iðnaðarráðuneytinu að því að móta stefnu um hvernig endurnýjanlegir orkugjafar geti nýst til að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi til framtíðar og skotið fleiri og styrkari stoðum undir efnahagslíf okkar og lífskjör.

Virðulegi forseti. Þegar litið er til stórframkvæmda í orkufrekum iðnaði sem vísað er til í þjóðhagsspá og stöðugleikasáttmála blasir við að stærsta vandamálið tengist fjármögnun verkefna. Það á jafnt við um Búðarhálsvirkjun í þágu framleiðsluaukningar í Straumsvík, virkjanir HS orku og Orkuveitu Reykjavíkur fyrir álver í Helguvík og framkvæmdir álfyrirtækjanna sjálfra. Ég hef lagt mitt af mörkum til að auðvelda fjármögnun álvers í Helguvík með undirritun fjárfestingarsamnings. Fjármálaráðuneytið hefur ritað Evrópska fjárfestingarbankanum til að liðka fyrir afgreiðslu bankans á 27 milljarða kr. lánsloforði til Orkuveitu Reykjavíkur. Auk þess hefur iðnaðarráðuneytið haft frumkvæði að því að leiða menn saman í stefnumörkun um nýjar leiðir við fjármögnun orkumannvirkja.

Vaxtakjörin sem orkuframleiðslufyrirtækjunum standa til boða og lágt eiginfjárhlutfall þeirra gætu leitt til þess að hefðbundnar fjármögnunaraðferðir flyttu arðinn af framkvæmdunum úr landi og þar með eru almannahagsmunir að mínu mati fyrir borð bornir. Því verðum við að leita nýrra leiða. Vegna þessa er nú unnið að stofnun orkusamlaga þar sem einstakar virkjanir eru verkefnafjármagnaðar sérstaklega. Nýleg lög um orkuauðlindir eru afar mikilvæg í þessu samhengi því að þau tryggja að auðlindir í opinberri eigu verði það til frambúðar, á sama tíma og einkafjármagn, innlent eða erlent, geti komið að sjálfri orkuframleiðslunni. Ríkisstjórnin hefur því beint því til Landsvirkjunar að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun sem allra fyrst og eru viðræður við lífeyrissjóði um aðkomu þeirra að fjármögnun virkjunarinnar þegar hafnar.

Virðulegi forseti. Önnur verkefni sem snúa að iðnaðarráðuneytinu eru t.d. aflþynnuverksmiðja Becromal við Eyjafjörð, en sl. sumar undirritaði ég fjárfestingarsamning vegna hennar sem gerði erlendum aðilum kleift að koma hingað með fjármuni til uppbyggingar þrátt fyrir gjaldeyrishöftin. Verksmiðjan hefur nú verið ræst og stefnt er að enn frekari stækkun hennar.

Fjárfestingarsamningur við Verne Holding vegna gagnavers á Reykjanesi er á lokastigi og verður vonandi undirritaður bráðlega.

Þetta eru þau verkefni sem stöðugleikasáttmálinn tekur beinlínis til en ég vil líka nefna önnur verkefni því að þau geta haft mikla þýðingu á næstu árum. Iðnaðarráðuneytið og sveitarfélög í Þingeyjarsýslum vinna að gerð viljayfirlýsingar sem hefur að markmiði að tryggja að orkurannsóknum á svæðinu geti lokið hratt og örugglega. Með þessu viljum við rjúfa kyrrstöðuna sem ríkt hefur í orkumálum fyrir norðan og tryggja að orkan verði nýtt í þágu uppbyggingar í heimabyggð. Ég held að hv. þingmaður ætti að koma með okkur í þann leiðangur (Gripið fram í.) og bíða eftir að við klárum þessa viljayfirlýsingu frekar en að gera þetta mál að pólitísku bitbeini, vegna þess að ég held að við deilum þessum markmiðum. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Mikilvægi nýrra fjárfestinga í íslensku atvinnulífi er algjörlega óumdeilt. Þess vegna er nú unnið að gerð frumvarps um rammalöggjöf um ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga sem leysir af hólmi þunglamalegt og ógagnsætt ferli fjárfestingarsamninga við einstök fyrirtæki. Skýr lagarammi um ívilnanir mun bæta samkeppnisstöðu okkar og auðvelda alla kynningu á Íslandi sem fjárfestingarkosti. Þá er, virðulegi forseti, mikilvægt að horfa ábyrgt til þess hvernig við byggjum upp til framtíðar, svo að lífskjör og lífsgæði geti haldið áfram að aukast hér á landi. Við eigum hvorki endalausa orku né óþrjótandi auðlindir, svo sem fiskinn í sjónum, og því er aðkallandi verkefni, sem við vinnum að í ráðuneytinu, hvernig við getum nýtt orkuna sem (Forseti hringir.) kemur upp úr jörðinni enn þá betur en við gerum.