138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:24]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni hér á þingi í vikunni eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Allt í kringum okkur eru jákvæð teikn úr atvinnulífinu, menningu, félagsstarfi og stjórnsýslu sem ættu að örva okkur og hvetja. Jákvæð teikn um samtakamátt, samheldni, áræðni og dugnað sem áður en langt um líður munu skila okkur breyttu og betra samfélagi.“

Er hæstv. forsætisráðherra í tengslum við þjóð sína og gerir hún sér einhverja grein fyrir stöðunni í landinu með þessum ummælum sínum? Varla.

Forsætisráðherra sagði líka að mesta áskorun ríkisstjórnarinnar væri að koma í veg fyrir atvinnuleysi, Ísland sé land tækifæranna og okkar sé að vinna úr þeim tækifærum. (Gripið fram í.) Tækifærin eru fyrir hendi en það verður ekkert úr þeim ef þau eru ekki nýtt. Tækifærin liggja í dugmiklu fólki og nýtingu náttúruauðlinda landsins til eflingar atvinnulífs og verðmætasköpunar. Lausnirnar liggja á borðinu. Viðspyrnan liggur í eflingu atvinnulífsins. Tafarlaus lækkun vaxta er grunnurinn að því að gefa heimilum og fyrirtækjum von auk þess sem það er leið til að létta á þeim þrýstingi sem er á gjaldmiðlinum.

Við verðum að setja í gang framkvæmdir við Búðarháls- og Hverahlíðavirkjun samhliða því að taka ákvörðun um nýtingu á hagkvæmasta virkjunarkosti okkar í Neðri-Þjórsá. Við verðum að endurnýja viljayfirlýsingu vegna framkvæmda á Bakka auk þess að leggja framkvæmdum við Helguvík allan þann stuðning sem við getum. Forustumenn ríkisstjórnarinnar sjá ekki þessi tækifæri, virðulegi forseti, ríkisstjórnin er alveg blind á þessi tækifæri. Og í stað þess að vinna þeim veg vinna þau hér skemmdarverk gagnvart þjóðinni og atvinnulífinu í hverri viku. Þau eru föst í viðjum fortíðar sem blindar þeim sýn á framtíðina. Ósamstaðan innan þessarar ríkisstjórnar er algjör og hún birtist okkur í sinni verstu mynd í hverri einustu viku og nánast í hverju einasta máli, ekki síst í stóriðjumálum og í þeim tækifærum sem þar liggja.

Það verða aðrir sem hafa þor og kjark hér á þingi að koma að stjórnarborðinu. Það gengur ekki að þessi ríkisstjórn stýri hér málum lengur, (Forseti hringir.) hún er algjörlega vanhæf til þess. (Gripið fram í: Er þetta bónorð?)