138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

nýting orkulinda til orkufreks iðnaðar og stöðugleikasáttmálinn.

[14:36]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst til að svara hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um lækkun orkuverðs til garðyrkjubænda og hvenær það gerist ef af verður, þá er nefnd að störfum á vegum landbúnaðarráðherra sem sinnir þessu máli. Ég get ekki sagt til fyrir fram um hvað út úr því kemur.

Virðulegi forseti. Það er svolítið merkileg umræða hér um að við, þessi ríkisstjórn, séum að hrekja burtu fjárfesta með aðgerðum okkar, hrekja burtu hugsanlega nýja fjárfestingu. Mér þykir þetta merkilegur málflutningur frá stjórnmálaflokkum sem finnst það í alvörunni vera möguleiki að stefna dag eftir dag í þinginu samstarfi við aðrar þjóðir í hættu. (Gripið fram í.) Með þessu eru þessir hv. þingmenn að senda þau skilaboð að þeim sé alveg sama um íslenskt atvinnulíf bara ef þeir halda sínu pólitíska lífi. (Gripið fram í.) Þetta er staðreyndin. Ef þetta gerist verður líka stökkt á flótta þeim alþjóðlegu fyrirtækjum sem hér eru. (Gripið fram í.)

Við þurfum að horfa fram til næstu skrefa hér á landi og við þurfum að nýta betur orkuna sem upp kemur úr iðrum íslenskrar jarðar en við höfum verið að gera hingað til. Við þurfum að byggja á þeim framkvæmdum sem þegar hafa farið fram. Við höfum fengið ánægjulegar fréttir á þessu sviði og vil ég sérstaklega nefna að fréttir hafa borist af því að bygging verksmiðju Carbon Recycling International er að fara af stað við Svartsengi þar sem útblæstri jarðvarmavera og álvera verður breytt í eldsneytið metanól. Iðnaðarráðuneytið hefur einmitt stutt verkefni af þessum toga til þess að við getum tekið næstu skref í orkunýtingu.

Lykilatriði, virðulegi forseti, er að við klárum verkefni sem kveðið er á um í stöðugleikasáttmálanum og við gerum það með myndarbrag enda hafa verið færðar fórnir fyrir það. Samtímis verðum við að horfa til framtíðar varðandi það hvernig við ætlum að nýta hér orkuna til að bæta lífskjör okkar Íslendinga. Að þessu erum við að vinna heils hugar (Forseti hringir.) og ég vona að hv. þingmenn séu frekar til í að snúast á sveif með okkur í ríkisstjórninni og iðnaðarráðuneytinu í þessum verkefnum en að stunda þann málflutning sem hér hefur stundum farið fram.