138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[15:02]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt öflugum grasrótarhópi í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði barist fyrir því að tekið yrði á skuldavanda heimilanna. Við höfum krafist þess að leitað yrði leiða til að leiðrétta höfuðstól fasteignalána, að verðtryggingin yrði afnumin og leigu- og kaupleiguíbúðakerfið eflt. Því er fagnaðarefni að hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra ætlar að leggja til aðgerðir sem létta eiga greiðslubyrði heimilanna þó að aðgerðirnar gangi ekki eins langt og margir skuldarar vonuðust til. Skuldabyrðinni er ekki aflétt eða hún gerð léttari með þessum aðgerðum. Óvissunni er heldur ekki eytt. Höfuðstóll fasteignalána er enn þá verðtryggður og ekki er komið í ljós hversu mikið á að afskrifa í lok tímabilsins. Aðgerðirnar bera þess merki að leitast hafi verið við að ná sátt milli þeirra sem telja að nóg hafi verið gert til að aðstoða skuldsett heimili og hinna sem krefjast leiðréttingar á óréttlætinu sem verðtryggingin olli við bankahrunið.

Í stað þess að staðnæmast við kosti og galla greiðslujöfnunar og greiðsluaðlögunar ætla ég aðeins að ræða aðgerðir sem ég tel að sé mjög brýnt að ríkisstjórnin og þingið veiti brautargengi. Það er að verðtryggingin verði afnumin hið allra fyrsta og að réttarstaða skuldara verði löguð, m.a. þannig að þeir geti skilað lyklum að fasteignum sínum og að þegar þeir lýsa sig gjaldþrota beri þeir ekki ábyrgð á skuldum sem eftir standa, en nú geta kröfuhafar kallað eftir greiðslum í allt að 15 ár.