138. löggjafarþing — 4. fundur,  7. okt. 2009.

staða heimilanna.

[15:08]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Jú, ef boðið er upp í dans á þessum forsendum þá erum við að dansa, þ.e. ég sé ekkert annað en jákvætt við reyna að finna leiðir til að umbreyta þessum ósjálfbæra lánastokki, gengistryggðu lánunum, og færa yfir í íslensk kjör. Ég held að núna reyni á fjármálastofnanirnar að bjóða viðskiptavinum sínum eitthvað í því efni. Við gefum með þessum aðgerðum fólki gólf til að standa á í samningum. Við tryggjum fólki ákveðin réttindi. Fólk getur kosið að borga í samræmi við það sem lagt hefur verið upp með núna og bíða eftir styrkingu krónunnar. Ef það vill hins vegar skipta yfir í íslensk kjör höfum við áhuga á að greiða fyrir því. Ég hef þegar rætt við bankana um að Íbúðalánasjóður komi með þeim að því að endurfjármagna tilboð þeirra þannig að hægt sé að bjóða fólki íbúðalán sem eru veitt á sjálfbærum forsendum.

Af hruninu eigum við líka að læra að hætta að mæla því bót að bankar bjóði kjör sem þeir geta ekki staðið undir. Við eigum að byggja upp forfjármagnað íbúðalánakerfi, þannig að búið sé að tryggja þau kjör sem boðin eru og ekki sé búin til fölsk kaupgeta á markaði sem spennir fasteignaverð upp og býr til innstæðulausar bólur. Við eigum að hverfa til kerfis sem hefur reynst nágrönnum okkar Dönum afskaplega vel. Hv. þingmaður vísaði til fordæmis á Norðurlöndum en danski fasteignamarkaðurinn er orðinn fyrirmynd um allan heim eftir kollsteypur síðustu mánaða og missira. Við eigum að byggja upp slíkt kerfi hér, að því mun ég vinna með bönkunum og fagna stuðningi við það.

Hvernig verður fullu réttlæti náð? Ég held að mestu skipti að tryggja fólki greiðslur í einhverju samræmi við það sem lagt var upp með og nú getum við stigið það skref. Við þurfum að taka á mörgum vandamálum í framhaldinu og leysum aldrei í eitt skipti fyrir öll þennan vanda. Við erum núna í miðri á, við þurfum að taka á vandanum og gefa fólki fyrirheit um að hægt sé að halda áfram án þess að upphaflegar forsendur bresti.

Hvað varðar skattstefnuna sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gerði að umtalsefni þá held ég að full ástæða sé til þess að við setjumst saman yfir hana og ræðum hvernig við getum brugðist við þeirri óhjákvæmilegu þörf að auka tekjur ríkissjóðs við þessar erfiðu aðstæður, að brúa bilið milli útgjalda og tekna sem við stöndum öll frammi fyrir. Ég held að við eigum að nálgast það verkefni þvert á flokka og ræða opinskátt um það.