138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:01]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka formanni fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarti Hannessyni, fyrir framsögu hans hér og vænti góðs af samstarfi við hann á komandi vikum við það erfiða verkefni sem fjárlaganefndin stendur frammi fyrir. Í mínum huga er alveg ljóst að það frumvarp sem hér liggur fyrir er í drögum, er ófullbúið á margan hátt, grunnur starfsemi ríkisins, tekjugrunnurinn, er á margan hátt óútfærður. Sömuleiðis liggur fyrir að á gjaldahliðinni er þó nokkuð af þáttum sem verður að fara mjög vandlega yfir, sérstaklega því sem lýtur að skipulagningu opinberrar þjónustu. Ég rek augun sérstaklega í það atriði sem er á bls. 305 í frumvarpinu og lýtur að endurskipulagningu sýslumannsembætta. Gert er ráð fyrir því að sú umfangsmikla breyting taki gildi á árinu 2010 strax 1. janúar og ég hef miklar efasemdir um að það geti gengið með þeim hraða sem þar er lagt til. Þá hlýtur það óhjákvæmilega að hafa áhrif á útkomu og framgang rekstrar ríkisins á komandi ári.

Það sem ég vil inna formann fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjart Hannesson, sérstaklega eftir er það ákvæði sem kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra við framsögu hans og lýtur að óráðstafaðri fjárheimild upp á 5 milljarða kr. sem á að vera undir verkstjórn fjármálaráðherra. Lítur formaður fjárlaganefndar ekki svo á að með þeim hætti sé verið að ganga á svig við þær reglur sem gilda um fjárreiður ríkisins að því leytinu til sem tekur til fjáraukalagasetningar? Ég vildi gjarnan heyra afstöðu hans til þessa þáttar málsins.