138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni góð orð og veit að við munum eiga gott samstarf um úrvinnslu á þessu frumvarpi og útfærslu á þeim einstöku liðum sem hann nefndi og raunar fleirum. Það er ljóst að það er ýmislegt sem á eftir að koma í ljós í þeirri vinnu.

Spurningin um óráðstafaðar fjárheimildir er mjög góð og verður að fjalla um það í fjárlaganefnd vegna þess að við erum í ákveðinni pattstöðu varðandi fjárveitingavaldið. Það hafa viðgengist hér reglur sem við höfum ekki alls kostar verið sátt við, þ.e. að menn hafa tekið ákvarðanir um ýmis verkefni, heilar Hríseyjarferjur eða annað sem hefur verið utan fjárlaga. Það hefur svo komið í nóvember, sem sagt þegar búið er að ráðstafa þessu öllu í lok árs þar sem fjáraukalögin samþykkja gjörðir ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt lögum er aðeins einn aðili sem hefur heimild til að úthluta peningum, það er Alþingi Íslendinga, og því er mjög mikilvægt að við höfum þessar reglur á hreinu. Ég sé það fyrir mér að við þurfum með einhverjum hætti að gefa eitthvert svigrúm fyrir framkvæmdarvaldið svipað og hér er gert en þá með mjög ströngum reglum og að kynna það. Eða að við þurfum að búa til kerfi um að fjáraukalög verði þá flutt a.m.k. þrisvar, fjórum sinnum á ári til þess að komast út úr þessari pattstöðu sem er þannig að við erum sífellt og höfum verið undanfarin ár að brjóta lög. Ég treysti því á að við tökum þennan þátt til umræðu, hverju megi haga betur í fjárlagavinnunni sem fjárlaganefnd mun standa að, skipulagi hennar og eftirliti með framkvæmdinni.

Mér finnst ekki vera útilokað að gera þetta með þessum hætti, við verðum einhvern veginn að tryggja að framkvæmdarvaldið hafi eitthvert svigrúm án þess að vera endalaust að brjóta lög.