138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:05]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í mínum huga liggur málið einfaldlega þannig fyrir að í ljósi þess hversu mikil óvissa er innbyggð í það frumvarp og þau frumvarpsdrög sem hér liggja fyrir, sé miklu eðlilegra að horfa þannig til hlutanna, ekki síst í ljósi reynslu undangenginna ára, að eftirlit Alþingis með framkvæmd fjárlaga sé gert miklu virkara en það hefur verið undanfarin mörg ár. Ég hallast miklu fremur að þeirri skoðun að vinna beri að fjárlagaframkvæmdinni með því að fjárlaganefndin og Alþingi verði virkjuð með mun einbeittari og ákveðnari hætti inn í það ferli allt saman en verið hefur. Við eigum von á því að fá fljótlega skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga og mér kæmi ekki á óvart að hún yrði með svipuðu sniði og innihaldi og verið hefur mörg undanfarin ár. Við sjáum það líka í umræðu og greinargerð með því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir að utanumhald um ríkisreksturinn á árinu 2009 virðist vera komið úr böndum. Í það minnsta stefnir í að hallinn á fjárlögum þessa árs, miðað við útkomuspá fjármálaráðuneytisins, verði til muna hærri en menn gerðu ráð fyrir í júní í vor.

Í ljósi alls þessa hef ég góðan fyrirvara á því að Alþingi auki sveigjuna við framkvæmdarvaldið til muna meira með þeim hætti sem hér er ráðgert. Ég hallast því miklu fremur að því að virkja Alþingi og fjárlaganefndina til muna meira inn í fjárlagagerðina og framkvæmd hennar en verið hefur og ég vænti þess að hv. formaður fjárlaganefndar sé sammála því sjónarmiði mínu.