138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:07]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson séum sammála um hvernig líta eigi á málin en ég held að við þurfum að leysa þetta vandamál: Með hvaða hætti kemur Alþingi að þessu, með hvaða hætti getum við fengið betri upplýsingar um rekstur ríkisins á hverjum tíma? Hvernig getum við hindrað það að framkvæmdarvaldið geti tekið ákvarðanir um nokkur hundruð milljónir, eins og hefur verið gert á undanförnum árum, utan fjárlaga og í rauninni í andstöðu við þau lög sem eru gildandi. Það gæti þurft að gera hvort tveggja, með auknu aðhaldi og eftirliti frá Alþingi, auknum fjölda fjáraukalaga, en líka með einhverju svigrúmi sem samkvæmt ákveðnum skilgreiningum er sett inn í fjárlagafrumvarpið. Það ku vera fordæmi fyrir því frá öðrum ríkjum eins og Norðurlöndum að framkvæmdarvaldið hafi ákveðnar heimildir. Að sjálfsögðu verða síðan notin af þeim heimildum að koma fyrir þingið til afgreiðslu og staðfestingar með tilheyrandi skýringum.

Aðalatriðið er að þetta sé skilvirkt og við sem þekkjum til vinnunnar í sveitarfélögum vitum að það er miklu skilvirkara og fljótvirkara kerfi hjá sveitarfélögunum en hjá ríkinu. Og án þess að minnka gæðin þurfum við að hafa betri stjórnsýslu þar sem hægt er að grípa inn í fyrr, þar sem hægt er að sjá betur raunstöðuna á hverjum tíma þannig að menn séu ekki, eins og verið hefur á undanförnum árum, að reyna að grípa inn í og reyna að lagfæra hlutina í nóvember. Þá er ekki eftir nema mánuður til þess að skera niður eða hagræða með einhverjum öðrum hætti.

Ég held að það sé enginn ágreiningur á milli mín og hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar um hvert verkefnið er og við í fjárlaganefnd munum taka afstöðu til þess hvaða leið er best í framhaldinu.