138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[13:31]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegi forseti. Því hefur verið haldið fram að það fjárlagafrumvarp sem hér er til umræðu eigi sér varla fordæmi hvað varðar þann viðsnúning sem það endurspeglar á stöðu þjóðarbúsins frá fyrri árum. Ég ætla ekki að draga það í efa að svo geti verið enda er himinn og haf á milli þess sem hér er rætt og þess sem áður hefur verið rætt um í þessum efnum. Þegar rennt er yfir umræður um fjárlagafrumvarp yfirstandandi árs hér á Alþingi í fyrra, í októberbyrjun fyrir réttu ári, má glöggt sjá að hvorki þáverandi fjármálaráðherra né þingmenn stjórnarliða og margir stjórnarandstæðingar á þeim tíma gerðu mikið úr því ástandi sem þá var að skapast og virtist vera fram undan í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Fáa óraði fyrir þeim ósköpum sem síðan gerðust en þó voru þeir til og fjölgaði ört á þeim tíma sem drógu upp þá dökku mynd sem síðan blasir við okkur í dag. Sem dæmi um þetta má nefna að þegar þáverandi fjármálaráðherra mælti fyrir frumvarpinu var því spáð að hagvöxtur í ár yrði um 1% og talið að niðursveiflan yrði ekki eins djúp og menn vildu þá sumir meina. Að vandinn sem blasti við stæði yfir í stuttan tíma og að kreppan yrði alls ekki svo djúp eða mjög erfið fyrir okkur að glíma við. Fleiri þingmenn voru þessarar skoðunar, bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn, sem þótti spá um þriggja prósentna atvinnuleysi í október í fyrra vera svartsýnisspá. Þeir höfðu fyrirvara á þeim varnaðarorðum sem höfð voru uppi um mikinn samdrátt í þjóðfélaginu og margir þóttust sjá fyrir. Það átti jafnt við um suma þingmenn úr stjórnarandstöðu sem og stjórnarsinna á þeim tíma sem voru svipaðrar skoðunar hvað þetta varðar og gerðu minna úr yfirvofandi vanda en efni stóðu til. Þeir vildu reyndar meina að þeir sem höfðu uppi hávær varnaðarorð gerðu of mikið úr hlutunum.

Ég rifja þetta ekki upp hér til þess að gera lítið úr orðum og skoðunum þessara ágætu þingmanna heldur til að sýna þau umskipti sem orðið hafa frá þessum tíma. Málin fóru svo sannarlega ekki á þann veg sem um var rætt og flestir eru jarðbundnari í málflutningi sínum um efnahagsástandið í dag en þeir voru þá. Það er líka algjörlega nauðsynlegt við þá umræðu sem nú fer hér fram að ræða fjárlagafrumvarp næsta árs út frá þeirri stöðu sem við erum í en ekki þeirri sem við hefðum gjarnan viljað vera í og flest okkar óskuðu eftir að vera. Að ætla sér að gera það út frá einhverju öðru en þeim staðreyndum sem við okkur blasa mun aldrei verða til góðs eða skila ásættanlegri niðurstöðu fyrir okkur eða þjóðarbúið í heild.

Það breytir í sjálfu sér engu í því samhengi hvort við hefðum óskað okkur að veruleikinn væri annar en hann er eða hvort við teljum að eitthvað hefði mátt betur fara á einhverjum tímapunkti í fortíðinni, hvað það var sem orsakaði þennan mikla umsnúning, hvað kom hruninu af stað, hverjum var um að kenna eða hverjir það eru sem bera hina pólitísku ábyrgð. Í mínum huga liggur þetta þó nokkuð skýrt fyrir og þannig er held ég um flesta landsmenn.

Þetta er ekki aðalatriðið varðandi það mál sem hér um ræðir, frumvarp til fjárlaga ársins 2010, því að hér erum við og getum lítið annað en unnið okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í einmitt í dag — sem er þá hver? Í stað þess hagvaxtar sem spáð var fyrir ári síðan, í október árið 2008, er hagvöxtur hér neikvæður um yfir 8% og spáð er áframhaldandi neikvæðum hagvexti á næsta ári. Ríkissjóður hafði verið rekinn í jafnvægi og með afgangi og átti orðið innstæður í Seðlabanka Íslands, sem námu á þeim tíma upp undir 10% af landsframleiðslu, ef ég man rétt, en nú stefnir í að halli á ríkissjóð sé um 80 milljarðar, líklega meira en innstæðan var fyrir ekkert löngu síðan. Viðsnúningurinn er alger.

Skuldastaða Íslands var með því lægsta sem þekktist og nú hafa skuldir ríkissjóðs vaxið úr um 300 milljörðum frá árinu 2007 í 1.750 milljarða, sem er vel yfir áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu. Atvinnuleysi sem áður mældist það minnsta á Íslandi af öllum þjóðum er nú spáð að verði yfir 10% á næsta ári og kaupmáttarrýrnun launa hefur orðið mikil sömuleiðis. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun um útgjöld ársins 2009 munu vaxtagjöld verða um 17 milljörðum kr. hærri en gert hafði verið ráð fyrir. Bæta þarf milli 7 og 8 milljörðum í Atvinnuleysistryggingasjóð til viðbótar því sem áætlað var. Yfir 3 milljarðar eru nú að falla á ríkissjóð vegna kaupa á flugvél Landhelgisgæslunnar, sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum einhverra hluta vegna, og tæpir 2,4 milljarðar eru að falla á ríkissjóð vegna ríkisábyrgðar sem fylgdi með bönkunum við einkavæðingu þeirra á sínum tíma, að mestu vegna Búnaðarbankans, ef ég þekki rétt til. Allt eru þetta útgjöld sem eru að bætast við í dag og finna má stað í fjárlagafrumvarpinu og fjáraukalögunum.

Samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að tekjur ríkisins verði 468 milljarðar en útgjöld 555 milljarðar, tæpir 556 milljarðar, útgjöld verða því tæpum 90 milljörðum meiri en tekjur. Ef við drögum þetta saman og reynum að átta okkur á því hvernig dæmið lítur út kemur í ljós að halli á ríkissjóði stefnir í að verða um 180 milljarðar, útgjöld ríkissjóðs á næsta ári verða tæpum 90 milljörðum meiri en við ætlum að afla tekna til og vaxtabyrðin af skuldum er talin verða um 100 milljarðar á árinu. Skuldir ríkissjóðs hafa þá sexfaldast á skömmum tíma því til viðbótar.

Þetta er satt að segja ekki mjög góð staða né auðveld viðureignar, það held ég að leynist engum hvar í flokki sem hann stendur. Þetta er heldur ekki staða sem við vildum vera í. Þetta er samt sem áður staðreyndin sem við okkur blasir og við fáum litlu um það breytt úr því sem komið er, svona er staðan og úr henni verðum við að vinna okkur. Upphafspunkturinn er hér, viðspyrnan er í dag við því ástandi hér er, hvergi annars staðar og þannig verðum við að horfa á þetta mál.

Eins og ég nefndi áðan skiptir í sjálfu sér ekki öllu máli í þessu samhengi hvernig í ósköpunum var hægt að koma þessari ágætu þjóð svo rækilega á kollinn sem raun ber vitni á jafnskömmum tíma án þess að brugðist hafi verið við með viðhlítandi hætti í tæka tíð. Það er auðvitað freistandi að fara út í þessa sögu og ræða það frá þeim grunni, þá sögu alla eins og hún blasir við okkur, og það er auðvitað þörf á því að rifja það reglulega upp bæði hér á Alþingi og annars staðar í samfélaginu. Ég ætla að láta það eiga sig að þessu sinni, það er önnur umræða sem bíður betri tíma við annað tækifæri. Ég held að það sé rétt að við séum ekki að sóa tíma okkar hér í slík ræðuhöld að sinni heldur einhenda okkur í þau verk sem bíða úrlausnar. Ég óska sömuleiðis eftir því að allir þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, í stjórn eða stjórnarandstöðu, fyrrverandi stjórnarliðar sem aðrir, geri slíkt hið sama og taki umræðuna út frá þeim staðreyndum sem við okkur blasa og engu öðru. Hér erum við og verðum að vinna okkur út úr vandanum héðan í frá.

Hvað gerum við þá þegar tekjur duga ekki fyrir gjöldum? Hvað gerum við þegar vextir af skuldum eru í þeim hæðum sem áður hefur komið fram í máli mínu og þeirra sem hér hafa talað í dag og undanfarna daga um þessi mál? Við öflum tekna og við lögum reksturinn að þeim fjármunum sem úr er að spila og við reynum að greiða niður skuldir sem bera þessa miklu vexti. Þetta er nokkuð einfalt og skýrt hverjum manni og augljóst öllum þeim sem vilja horfast í augu við þessa stöðu, línurnar eru nokkuð skýrar.

Við getum auðvitað látið sem ekkert sé og neitað því að horfast í augu við staðreyndir, vonað að þetta muni bara leysast af sjálfu sér, vonað að skuldir muni gufa upp og lánardrottnar líti svo á ástandið hjá okkur á Íslandi að hér sé um gjaldþrota þjóð að ræða sem ekkert sé til að sækja. Það hefur örlítið borið á þessari umræðu, meira að segja í þessum þingsal hjá sumum þingmönnum, að hér verði engu hvort eð er bjargað og eins gott að segja sig til sveitar sem fyrst. Það er umræða sem ég hvet til að við forðumst því að það er ekki valkostur. Ísland er ekki gjaldþrota þjóð heldur þjóð sem hefur betri möguleika á því en flestar aðrar þjóðir að koma sér út úr þeim vanda sem hún er í, það skulum við gera og það munum við gera.

Það verður ekki komist undan því að grípa til aðgerða sem munu þykja harðari en áður hafa þekkst hér á landi. En ef ekki verður ráðist í aðgerðir til að draga úr halla á ríkissjóði munu vaxtagreiðslurnar einar og sér á skömmum tíma gera út af við möguleika okkar til að rísa upp úr þessum vandræðum. Þetta vita allir.

Við komum ekki í veg fyrir hallarekstur með því eingöngu að afla tekna upp í fjárlagagatið, það mundi ofbjóða greiðslugetu þjóðarinnar, jafnt einstaklinga sem fyrirtækja. Við lokum ekki því ljóta fjárlagagati heldur með því að leiðrétta rekstur ríkisins með niðurskurði af þeim tekjum sem við höfum úr að spila í dag. Það mundi að sjálfsögðu ganga allt of nærri velferðarkerfinu og stórskaða samfélagið allt. Það þarf að vera jafnvægi á milli tekjuöflunar og leiðréttingar í rekstri ríkisins og reynt að dreifa byrðunum sem víðast. Það er enginn undanskilinn því að taka þátt í endurreisn efnahagslífsins og það á við um einstaklinga og fyrirtæki. Ísland er allt undir og við munum aðeins komast út úr þessum vanda með samstilltu og sameiginlegu átaki.

Fjárlagafrumvarp ársins 2010 miðar að því að laga reksturinn að því umhverfi sem við búum við í dag og að því að jöfnuður í rekstri ríkisins verði orðinn jákvæður á árinu 2013. Ramminn er skýr, línan er dregin við að ná þeim árangri í rekstri sem fram kemur í frumvarpinu og afla þeirra tekna og laga reksturinn að getu okkar hvað það varðar. Allar breytingar sem á frumvarpinu verða við umfjöllun Alþingis munu því þurfa að taka mið af þeim ramma sem við setjum okkur hér og allar innbyrðis breytingar sem kunna að verða gerðar á frumvarpinu og verða til hækkunar einstakra liða mun þá verða að finna jafnvægi fyrir í samsvarandi samdrætti einhvers staðar annars staðar.

Virðulegi forseti. Ég hef farið mjög almennum orðum um það sem hér um ræðir, frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár. Það verður ekki úr því dregið að þetta frumvarp ber merki þess mikla efnahagsvanda sem við eigum við að etja og skal ekki lítið gert úr því að mörgum kann að þykja sá samdráttur á útgjöldum sem í frumvarpinu felst koma illa við hin ýmsu verkefni og málefni sem menn vilja standa vörð um.

Ég ætla að ljúka máli mínu á því að hvetja þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, úr öllum kjördæmum, stjórn og stjórnarandstöðu, til að ganga til þessa verks sem bíður okkar með það í huga að leysa í sameiningu þann mikla vanda sem við erum í. Við verðum alltaf að hafa heildarmyndina í huga, hugsa um landið okkar sem eitt en ekki skipta því upp í smærri einingar. Við megum illa við því að skipta liði, ástandið býður einfaldlega ekki upp á slíkt og þjóðin á það hreinlega ekki skilið af okkur eftir það sem á undan er gengið. Alþingi verður að reyna hið minnsta að koma sér saman um lausn efnahagsvandans og eru fjárlög næsta árs þar ekki undanskilin.