138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[13:53]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Flatur niðurskurður eða að skera niður alls staðar er versta aðferð sem hugsanleg er til að rifa seglin, eins og íslenskt þjóðfélag þarf að gera á þeim tímum sem við lifum nú. Ég geri mér það ljóst og sætti mig við þá skilgreiningu að ef undirstöðuatvinnugreinar þjóðfélagsins eru matur og drykkur samfélags okkar eru menning og listir þau nauðsynlegu vítamín sem hvert þjóðfélag þarf á að halda til þess að vera heilbrigt og til þess að þegnarnir geti verið hamingjusamir. Þjóðfélag án menningar og lista er ekki raunverulegt þjóðfélag heldur tímabundið samfélag manna, nokkurs konar verstöð eða olíuborpallur þar sem engar kröfur eru gerðar um að lífið veiti hamingju heldur að lífið sé notað til að vinna tímabundin verkefni og skila fjárhagslegum arði.

Ég starfaði í heilan mannsaldur, í aldarfjórðung, í 25 ár, ásamt öðru góðu fólki við að leggja grundvöll að íslenskri kvikmyndagerð. Þetta tímabil hefur verið kallað kvikmyndavorið. Það var kalt og erfitt vor og viðkvæmur gróðurinn, nýjabrumið, þurfti að standa af sér mörg vorhret. Kvikmyndagerð á Íslandi þróaðist ekki af öðru en þvermóðskulegu einstaklingsframtaki. Stuðningur ríkisins við þetta frumkvöðlastarf var lítill og sá stuðningur var veittur með semingi. Þeim litla styrk sem í boði var af hálfu ríkisins urðu kvikmyndamenn að sætta sig við að væri misbeitt og oft og einatt úthlutað samkvæmt íhlutun gjörspilltra stjórnmálamanna sem þökkuðu sér styrkinn í fyrsta lagi.

Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir þessar fjandsamlegu aðstæður, þrátt fyrir lítið þjóðfélag tókst að byggja hér upp kvikmyndagerð sem skilað hefur störfum og þekkingu, sem hefur aukið lífsgæði þjóðarinnar og glætt þjóðernistilfinningu Íslendinga. Það hefur styrkt stoðir íslenskrar tungu og skilað meiri landkynningu á undanförnum áratugum en samanlögð landkynningarátök ríkisins á undanförnum árum að meðtöldu því fokdýra og fáránlega flani á árum mikilmennskubrjálæðisins að sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Nú þegar íslensk kvikmyndagerð hefur slitið barnsskónum og vorið er liðið á að leiða hana til slátrunar. Það er í ráði að skera niður framlög í Kvikmyndasjóð um 200 millj. kr., þ.e. um 34%, ekki 5%, ekki 7%, heldur 34%. Þarna er ekki um niðurskurð að ræða heldur aftöku. Þetta eru ekki handaverk hugsandi stjórnmálamanna sem vilja hagræða og grisja burt það sem ekki er lífvænlegt svo að þær plöntur sem við viljum fá notið ávaxtanna frá beri þann ávöxt sem hugsanlega er bestur og hafa til þess svigrúm og nauðsynlega aðhlynningu. Þetta eru handaverk hugsunarlausra baunateljara.

Hér eins og víðar í fjárlagafrumvarpinu þurfa pólitísk hugsun, pólitísk framtíðarsýn og pólitísk ábyrgð að koma inn í staðinn fyrir hugarfar baunateljarans. Við þurfum að hugsa það vel og vandlega á þessari ögurstund í lífi þjóðarinnar hvað það er sem við viljum flytja með okkur inn í framtíðina og fá að njóta ávaxtanna af og hvað það er sem við getum án verið, hvað hefur skilað sínu eða hvað var kannski aldrei lífvænlegt.

Það er fleira í fjárlagafrumvarpinu en þessi niðurskurður til kvikmyndagerðarinnar sem mig langar til að gera að umtalsefni en tími minn leyfir ekki að ég fari út um víðan völl í þessari stuttu ræðu. En það kemur alltaf meiri tími, eins og vinir okkar Færeyingar segja, og ég vonast til þess að geta vikið að fleiri atriðum síðar. Á því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur frammi eru bæði kostir og gallar. Sparnaður og hófsemi, sem eru kannski aðalsmerki vinstristefnu, eiga sín spor í þessu frumvarpi en því miður er þessi höfuðstyrkur vinstri manna líka þeirra helsti veikleiki. Í þetta frumvarp vantar framtíðarsýn, það vantar skapandi hugsun og það vantar að leggja fram áætlanir um uppbyggingu sem mun skila sér í betri lífskjörum og betri lífsgæðum hér á landi, lífsgæðum sem á engan hátt er hægt að koma til hjálpar með niðurskurði og skattlagningu.

Ég vona að í meðförum Alþingis takist okkur sem sæti eigum á Alþingi, þeim sem í fjárlaganefnd sitja og fjármálaráðherra einkum og sér í lagi að gera það við fjárlagafrumvarpið sem því er í rauninni ætlað að gera við íslenskt þjóðfélag, að reyna að fækka göllum þess og reyna að hlúa að kostum þess.