138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:06]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga ársins 2010 sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fram í morgun. Ég verð að segja það í upphafi máls míns að ég ber þá von í brjósti að þetta fjárlagafrumvarp hljóti sömu örlög og Icesave-samningurinn hlaut í fjárlaganefnd, því verði í raun og veru snúið á hvolf.

Ég ætla hins vegar ekkert að gera lítið úr því að verkefnið er erfitt og það verður ekkert komist hjá niðurskurði í ríkisútgjöldum. Það væri bæði óábyrgt og ósanngjarnt af minni hálfu að halda því fram að það eigi ekki að gera. Það er hins vegar ekki sama hvernig það er gert, það þarf að vanda mjög til verka núna við þessar aðstæður. Því miður höfum við ekki getað vandað nóg til verka og það eru margar ástæður fyrir því. Eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á í ræðu sinni í morgun og dró ekkert úr því, eru aðstæðurnar í þjóðfélaginu þannig, líka í stofnunum landsins, að við þurfum að vanda okkur betur. En ég ber þá von í brjósti að við munum ná að snúa því til betri vegar sem liggur fyrir í fjárlaganefnd.

Eins og ég sagði er mikilvægt að menn skeri niður og undan því verður ekkert komist en það þarf að gera það á réttan hátt. Það er ekki skynsamlegt að fara í flatan niðurskurð eins og hér er boðað heldur þurfa menn að skoða hlutina algjörlega ofan í kjölinn. Alltaf þegar ég fer að hugsa um vandamál ríkisins í fjármálum kemur tónlistarhúsið upp í huga mér. Ég er bara að velta fyrir mér hvort við séum öll komin niður á jörðina enn þá, hvort það hefði nú ekki verið skynsamlegra að fresta byggingu þess húss og hafa það þá sem minnisvarða um hrunið en snúa sér frekar að arðbærari uppbyggingu eins og til að mynda vegaframkvæmdum og öðru og sleppa þessari vitleysu.

Síðan er það þessi skattpíningarstefna sem birtist hér. Ég tel hana algjörlega óraunhæfa, þó svo að menn vildu reyna að fara eftir henni er hún algjörlega ófær. Að ætla að bæta við 40 milljörðum bara á tekju- og eignarskatt á einstaklinga fyrir utan aðrar álögur sem munu aukast, er bara algjört brjálæði. Hvað eru eiginlega margir í þessum sal sem halda að fjölskyldurnar í landinu og fyrirtækin beri frekari skatta en þau eru með núna? Ég er ekki í þeirra hópi, svo mikið er víst. Þetta er algjör eyðimerkurganga, því miður, algjör. Það er eins og menn átti sig ekkert á því að það séu einhver þolmörk á skattpíningunni, nei, hún er bara endalaus. Þetta er bara eitthvert box sem maður opnar og það kemur endalaust upp úr því.

Þegar við fórum í bandorminn í sumar varaði ég við því að það þýddi ekki að hækka bara skattana, það mundi ekki skila sér til baka. Hver er síðan niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að á árinu 2009 koma 15 milljörðum minni tekjur inn í ríkissjóð en reiknað var með þrátt fyrir þær aðgerðir sem gerðar voru. Segir það okkur ekki allt sem segja þarf, frú forseti? Þetta er algjörlega dæmt til að mistakast, því miður.

Við hvað aðstæður gerum við þetta? Við gerum þetta við þær aðstæður að kaupmáttur er að minnka um 11,4%, samdráttur á einkaneyslu um 6,1%, atvinnuleysi verður 10,6% og eykst um 20% á milli ára. Og það á bara að hækka skattana. Nei, frú forseti, þessi leið er algjörlega ófær.

Það sem þarf að fara að gera hér er að framleiða og búa til verðmæti, það er það sem þarf að gera. Menn geta svo snúið því öllu á hvolf og sagt að við sjálfstæðismenn höfum bara einhverjar leiðir sem tengjast stóriðju. Það er ekki þannig, við höfum bent á fullt af öðrum leiðum en það hentar mörgum hins vegar að halda því fram að hér sé bara sama stóriðjustefnan á ferðinni og hefur alltaf verið til þess að skapa hér störf og atvinnutækifæri. Það er ekki þannig.

Það eina sem þessi ríkisstjórn hefur gert er að þvælast fyrir fólki sem vill byggja upp og koma með erlent fjármagn inn í landið, það er það eina sem hún hefur gert. Og ekki bara það, ríkisstjórnin veit ekki hvort hún er að fara til hægri eða vinstri, hún er algjörlega ráðvillt, enda sést það líka við framlagningu þessa frumvarps. Hvað kemur fram þar? 16 milljarða orkuskattur, og það er fínt að hafa fagurgala um að einhver stóriðja geti svo sem borið það. En hvað þýðir þetta og hvernig er framkoman? Það kemur bara skipun að ofan eins og svo sem allt annað sem ríkisstjórnin gerir. Hún kemur bara með tilkynningu og hún skal standa. Að henni hafi dottið í hug að ræða þetta við forsvarsmenn fyrirtækjanna um hvaða áhrif þetta hefði? Nei, henni datt það ekki í hug. Nei, það kom skipun að ofan. Og kannski að hæstv. forsætisráðherra og þessum margfræga verkstjóra, sem búið er að ákalla hér lengi, takist það líka að hrekja stóriðjuna burtu eins og hún gerði við fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Kannski að það sé bara markmiðið.

Hvað þýða þessir 16 milljarðar? Bara til þess að setja þetta í smásamhengi þýðir þetta að núna greiða álfyrirtækin eða stóriðjan um 5 milljónir á starfsmann í landinu í árslaun. Skatturinn einn og sér, þó að það eigi eftir að útfæra hann, er 10 milljónir á hvern starfsmann. Er þetta gáfulegt? Og ekki bara það, framkoman gagnvart fyrirtækjunum er algjörlega ólíðandi. Ætla menn að koma inn í svona umhverfi þar sem stjórnvöld breyta leikreglunum í hálfleik? Nei, við erum að tapa trausti og það er meira en 16 milljarða kr. virði, frú forseti, það fullyrði ég. Þetta eru algjörlega ótæk vinnubrögð.

Síðan getum við deilt um það hvort það eigi að gera þetta mikið í þessu eða hinu. Það þýðir ekkert fyrir fólk að koma og segja að hér sé einhver græn stefna og hafa svo engin svör við því hvað á að gera, það gengur ekki, það á bara að gera eitthvað annað. En við þurfum líka að hlúa að öllum, meðalstórum, stórum og smáum fyrirtækjum sem er mörgum hverjum að blæða út. Hefði ekki verið skynsamlegra að fara í vegaframkvæmdir vítt og breitt um landið og sleppa þessu tónlistarhúsi? Jú, það hefði sko verið margfalt skynsamlegra en því miður erum við bara ekki öll komin niður á jörðina enn þá.

Eins og ég sagði í upphafi þarf að skera niður í ríkisútgjöldum og ég geri ekkert lítið úr þeim vandamálum sem ríkisstjórnin á við þar. En það eru líka margar aðrar leiðir til þess að gera það. Ég benti á það í ræðu minni að það þarf að hlúa að þeim fyrirtækjum sem vilja koma hingað með erlent fjármagn og byggja upp starfsemi og atvinnu. Álverið í Helguvík, sem er algjörlega komið í uppnám núna — bara fyrsti áfangi þess sem er klár þýðir 7 milljarða í beinar skatttekjur ríkisins, um þrjú þúsund störf. Það þýðir 5 milljarða í sparnað á atvinnuleysisbótum, það eru 12 milljarðar. Nei, það er að sjálfsögðu ekki hugsað neitt til enda, það kemur bara tilskipun að ofan.

Við gætum gert margt annað. Ég fagna yfirlýsingu hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan um að bæta við veiðiheimildir. Hvað gerði ríkisstjórnin þegar Hafrannsóknastofnun kom með tillögur sínar í vor? Hún stimplaði þær bara. Það var ekkert verið að spá í það hvað væri fram undan. Jú, það er harður vetur og miklir erfiðleikar. Nei, það var ekki hægt að gera annað því að þá voru menn að gutla við einhverja Evrópusambandsumsókn sem kostar fleiri hundruð milljónir á þessu ári. Það hefði kannski mátt sleppa því og geyma það í eitt til tvö ár á meðan við værum að gera vinna bug á vandanum, sleppa t.d. í staðinn að skera niður hjá SÁÁ o.fl., svo ég nefni bara eitthvað af handahófi. Peningunum væri betur varið þar en í þetta Evrópusambandsgutl.

Síðan vil ég koma hér inn á eitt, af því að menn eru gagnrýndir fyrir að koma ekki með tillögur. Við sjálfstæðismenn höfum margoft komið með tillögur. Við komum með efnahagstillögur sem við kynntum í vor. Þær fengust ekki skoðaðar eða ræddar, þær voru bara slegnar út af borðinu. Ein af hugmyndunum var t.d. að breyta skattlagningu á lífeyrissjóðakerfinu, að skattleggja frekar inn en út. Nei, það var bara hugsað um að skattleggja út, annað var ekkert skoðað. Skattmann skal bara bæta við prósentu og þá fær hann meira. Það er gáfulegt.

Ég er ákveðinn í því að flytja þingsályktunartillögu um að bæta við veiðiheimildir. Bara ef við mundum bæta 40 þús. tonnum við þorskinn, 15 þús. tonnum við ýsuna, 15 þús. tonnum við ufsann, 3 þús. tonnum við grálúðuna og 2 þús. tonnum við skötuselinn, sem er algjörlega óskiljanlegt af hverju er ekki bætt við, mundi það færa 27 milljarða inn í hagkerfið. Og þá er mjög varlega farið, þarna eru ekki neinar tölur eins og oft hafa heyrst hér. Nei, það má ekki skoða það, það er bara allt stimplað frá Hafrannsóknastofnun. Nei, okkur vantar greinilega ekki tekjur, það á bara að pína þjóðina meira og setja hana endanlega niður á hnén, því miður.

Ég ætla nú að ljúka máli mínu frekar á jákvæðu nótunum. Ég geri mér vonir um að við náum að snúa ofan af þessu og koma viti fyrir ríkisstjórnina í fjárlaganefndinni, eins og við höfum gert stundum áður, og heiti því að starfa þar með því góða fólki sem þar er því að við verðum að opna augun fyrir því að við skattleggjum okkur ekki út úr vandanum. Það sem við þurfum að gera er að búa til störf, við þurfum að skaffa atvinnu, búa til tekjur og gefa fólkinu og fyrirtækjunum í landinu von.