138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:34]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki ofsagt hjá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að það þurfi að skoða þetta frumvarp nánar í fjárlaganefnd. Ég held að óhætt sé að viðurkenna það bara að þessu frumvarpi þarf að snúa á haus og í raun og veru þyrfti að skrifa nýtt fjárlagafrumvarp ef við ættum að komast í gegnum þau vandræði sem ríkisstjórnin er búin að koma okkur í ofan á allt sem fyrir var.

Sá stöðugleikasáttmáli, sem nú er kominn í öndunarvél á gjörgæslusjúkrahúsi, gerir ráð fyrir því að hluturinn í skattahækkunum og niðurskurði verði 45:55, þ.e. að skattheimtan skuli vera 45%. Í þessu fjárlagafrumvarpi eða drögum að fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir 47:53. Það er tveggja prósentna munur. Hæstv. fjármálaráðherra sagði: Þetta munar nú ekki svo miklu.

Þetta munar 12 milljörðum kr. sem á núna að sækja ofan í vasa almennings í landinu, þetta eru 12 milljarðar til viðbótar við það sem gert var ráð fyrir í svokölluðum stöðugleikasáttmála, sem auðvitað er nú farinn út um gluggann.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að því hvort hún telji að þá skattstofna sem á núna að fita — þá er ég að tala um tekjuskatt einstaklinga sem mun hækka um 40 milljarða — sé hægt að sækja til fólks. Telur hún að fólkið, heimilin í landinu, geti í raun og veru borgað svona mikla skatta? Hvernig kemur þetta við ágætar hugmyndir hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, mjög fínar hugmyndir, um að hjálpa heimilunum? Þær þurrkast náttúrlega samstundis upp við þessa miklu skattheimtu.

Enn fremur langar mig til að spyrja að því, vegna þess að ég geri ráð fyrir að hún hafi innsýn í það: Hvernig verður með 10% hækkun á áfengisgjaldi og bensíngjaldi nú um áramót? Það mun væntanlega fara beint inn í vísitöluna. Er þingmanninum kunnugt um að ríkisstjórnin sé að huga að því hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að slíkar hækkanir fari beint út í verðlagið? Þegar því er síðan bætt ofan á óskilgreinda tekjuskatta sem enginn veit hver á að borga, (Forseti hringir.) býð ég ekki í það hvernig ástandið verður hér 1. janúar.