138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:39]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan um þá forskrift sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu fyrir þá vinnu sem fara mun fram um hönnun á reglum og breytingu á skattkerfinu. Það er í fyrsta lagi að það sé jafnræði í skattlagningu, að skattbyrðin dreifist með sanngjörnum hætti, að hún hafi sem minnst áhrif á ákvarðanir um fjárfestingu og neyslu og að skattbyrðin þjóni þeim markmiðum að jafna tekjudreifingu í þjóðfélaginu. Allir þessir þættir þurfa að vinna saman og ég held því ekki fram að það sé létt verk en ég held að það sé vinnandi.