138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:42]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrsta spurning hv. þingmanns var um úrskurð hæstv. umhverfisráðherra um suðvesturlínu. Sá úrskurður olli mér miklum vonbrigðum og ég hafði áhyggjur af því að þarna mundu alvarlegar tafir verða. Ég áttaði mig ekki á því að hægt væri að fara í heildstætt mat með línurnar þar sem fullkomin óvissa ríkir bæði um orkuöflun og orkuflutning. Vissulega þurfum við Suðurnesjamenn á suðvesturlínu að halda fyrir álver í Helguvík en við þurfum einnig á suðvesturlínum að halda til þess að treysta orkuflutningsleiðir um Suðurnesin. Óöryggi í þeirri línulögn sem nú er er mikið og það skiptir miklu máli fyrir öryggi Landsnetsins í heild að suðvesturlínur séu styrkar. Þá skulum við hafa í huga að fyrir ári síðan kom bilun í kerfið og allt fór í uppnám. Þarna er alþjóðaflugvöllur m.a. fyrir utan tuttugu og eitthvað þúsund íbúa, alls konar fyrirtæki sem þurfa á öruggri orku að halda og orkuflutningsleiðum sem eru öruggar og góðar.

Varðandi skerðingu á þorskveiðikvóta er ég alveg sammála því að þetta hefur mikil áhrif á sjávarbyggðir landsins, ég þekki það vel úr Sveitarfélaginu Garði. Hins vegar hef ég skilning á því að þessi framlög þurfi að falla niður í þessu árferði.