138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:04]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir hans ágætu ræðu. Ég get tekið undir margt af því sem þar kom fram, ekki síst þann hluta ræðunnar sem varðaði landsbyggðina og hvort hún ætti að taka undir þyngstu byrðarnar umfram það sem gerist suðvestanlands.

Mikið hefur verið rætt um aukna skattbyrði í þessu frumvarpi og hvernig hún lendir á heimilum og fyrirtækjum. Ég held að aukin skattbyrði geti ekki lent á öðrum en heimilum og fyrirtækjum. Ég held að það sé öllum ljóst, jafnt þeim sem hér eru inni í þingsal og þeim sem eru utan þingsalar, að það þarf að grípa til aukinnar skattheimtu vegna þeirrar óheppni sem íslenskt samfélag hefur orðið fyrir af völdum þess sem svo margir þekkja.

Mig langar að spyrja hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson um þær hugmyndir sem hann hefur um aukna skattheimtu, vegna þess að ég trúi því að hann sé sammála mörgum hér inni um að það þurfi að auka skattheimtu að einhverju leyti til að mæta þeim ósköpum sem blasa við okkur: Vill hann sjá þrepaskatt, hátekjuskatt að einhverju leyti? Vill hann sjá að skattar verði að einhverju leyti hækkaðir á þeim fyrirtækjum sem helst hafa tekjur til skiptanna í þessum efnum, svo sem útflutningsfyrirtækjum? Það væri ágætt að fá fram sýn framsóknarmanna, þess ágæta flokks, á þær skattaleiðir sem færar eru út úr ógöngunum.