138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum ekki verið talsmenn þess að skattleggja eina atvinnugrein umfram aðra. Við höfum verið talsmenn þess varðandi fyrirtækjaskatta og skatta atvinnulífsins að eðlilegt sé að horft sé á þá með jafnræði, það sé þá almenn skattheimta á fyrirtækin og atvinnulífið. Við teljum að í því umhverfi sem við erum í í dag sé mjög varasamt að boða sérstaka skatta, t.d. orkuskatt, svo ég nefni hann, eða skatt á sjávarútvegsfyrirtæki. Ekki síst þegar við erum um leið að skapa mikla óvissu í því umhverfi sem þessi fyrirtæki búa við, t.d. í sjávarútveginum, með því að halda fast, sem mér virðist ríkisstjórnin ætla að gera, í svokallaða fyrningarleið. Þá getum við að mínu viti tæplega sagt um leið við fyrirtækin: Nú eigið þið að borga meiri skatta, af því að þau eru nú þegar í klemmu varðandi sína framtíðarsýn og annað.

Eigum við að taka skatta af fyrirtækjum sem nýta náttúruauðlindir okkar? Það kann að vera að á einhverjum tíma sé það réttlátt, við skulum ekki útiloka það. En við höfum varað við því að leggja slíka skatta í dag því að það muni fæla frá frekari fjárfestingar í þessum geira. Ég vorkenni engum fyrirtækjum í iðnaði eða öðrum atvinnugreinum að greiða skatta til samfélagsins, alls ekki, þau eiga að gera það eins og aðrir. En við verðum að passa okkur á því að hafa kerfið eða þau skilaboð sem við sendum ekki með þeim hætti að hingað vilji menn ekki koma, að fyrirtækin vilji ekki fjárfesta. Við vörum við því að fara þá leið, alla vega að senda mjög óskýr skilaboð eins og gert hefur verið undanfarið.

Það er alveg ljóst að ef við ætlum að brúa það bil sem er í samfélaginu í dag varðandi fjármál ríkisins getum við ekki gert það með sparnaði eða sköttum, við verðum að auka tekjur.