138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:39]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að þegar að þrengir er hv. þm. Ásbjörn Óttarsson jafnaðarmaður í hugsun og það á við raforkumálin hér á landi, við þurfum að sjálfsögðu að jafna kjör íbúa þessa lands þegar kemur að raforkunni.

Hvað varðar skatta á þau fyrirtæki sem helst flytja inn gjaldeyri til þessa lands, t.d. Alcoa og önnur álfyrirtæki, tel ég fráleitt að fara þá leið sem nefnd hefur verið í fjárlagafrumvarpinu að ofurskattleggja þau. Hins vegar tel ég einsýnt að þau taki þátt í aukinni skattheimtu í samræmi við það sem aðrir þurfa á sig að leggja við þær aðstæður sem nú blasa við í samfélaginu. Ég undanskil þau fyrirtæki ekki en ítreka að það má samt aldrei verða til þess að við útilokum eða þrengjum að erlendu fjármagni sem við þurfum að fá inn í landið.