138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:49]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessar spurningar frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur. Ég er ekki sammála þeirri sýn hennar á frumvarpið að þar sé boðaður flatur niðurskurður. Hann er með ýmsum hætti. Ég er ekki endilega sammála því sem fram kemur í þessu frumvarpi og ég tel mig hafa rakið það í minni ágætu framsöguræðu áðan sem fjallaði einmitt um að ég væri á margan hátt ósammála frumvarpinu. Ég held að hv. þingmaður geti verið sammála mér að ýmsu leyti varðandi að þetta er ekki fullkomið verk. Ég er ekki talsmaður þess að farið verði í flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og víðar í samfélaginu. Það kom fram í ræðu minni.

Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að ganga róttækt fram í ríkisbúskapnum þannig að aðrar þjóðir í kringum okkur fái fulla trú á því að við séum að taka til í okkar ranni, þannig að við öðlumst tiltrú alþjóðasamfélagsins sem þar með er tilbúið til að lána okkur til þeirra framkvæmda sem m.a. munu koma okkur upp úr þeim djúpu hjólförum sem íslenskt samfélag er í núna. Lánastofnanir úti í heimi, hvort heldur þær eru viðskiptalegs eðlis eða pólitísks, eru nefnilega ekki tilbúnar að lána okkur nú um stundir. Fram hefur komið hjá orkufyrirtækjum jafnt hér suðvestanlands sem annars staðar á landinu að það er ekki bara erfitt að fá lánafyrirgreiðslu til stórframkvæmda á Íslandi núna heldur vonlaust, vegna þess að alþjóðaumhverfið bíður eftir því að tekið sé til í okkar ranni svo það fái tiltrú á íslensku samfélagi, svo það hafi tiltrú á lántakandanum.