138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:04]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var á margan hátt ánægjulegt að hlusta á ræðu hv. þm. Ólafar Nordal. Hér takast náttúrlega á grundvallarstefnur í stjórnmálunum, klárlega, hvernig við eigum að koma okkur upp úr þeim ósköpum sem við höfum lent í. Mig langar að spyrja hv. þingmann nokkurra spurninga sem varða grundvallarpólitík í tilefni umræðunnar.

Telur hún að við þolum að fara einvörðungu í niðurskurð á ríkisútgjöldum til að koma okkur út úr þeim vanda sem við erum í núna, öll sem eitt? Telur hún að að einhverju leyti þurfi að koma til skattahækkanir, almennar og jafnvel sértækar, til að koma okkur út úr þessum vanda? Ef svo er, hvaða skatta ber þá að hækka? Jafnframt, og það er kannski lykilspurning: Eiga þeir að greiða meira sem eiga og eignast meira í samfélaginu en þeir sem bera skarðan hlut frá borði?

Svo að síðustu, til að hv. þingmaður hafi eitthvað gaman af þessu, af því að hún flutti sig um set frá Norðausturkjördæmi til Reykjavíkur, er það grundvallarspurningin: Á að hætta við byggingu tónlistarhússins?