138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:09]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólöfu Nordal hefur orðið tíðrætt um vinnubrögð og er þá eðlilegt að upplýsa hana um að ég tel vinnubrögð við þessi fjárlög til fyrirmyndar. Þau eru unnin á grundvelli skýrslu fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálunum sem mjög margir þingmenn stjórnarflokkanna koma að, enda var það þannig að minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingar varð að meirihlutastjórn í nýafstöðnum kosningum af því að almenningur í landinu treystir þessum flokkum til að taka á sanngjarnan hátt á þeim aðstæðum sem uppi eru. Ég heyri að hv. þingmaður á erfitt með að virða lýðræðislega niðurstöðu þingkosninga en það gerum við flest hin í þessum sal.

Ég vil koma inn á spurningu mína. Hv. þingmaður talar um að breikka og dýpka skattstofna um leið og hún vill einfalt skattkerfi. Ég held að það sé nákvæmlega það sem við erum að gera, því að þeir voru þrengdir og grynnkaðir í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og ollu aukinni misskiptingu í samfélaginu. Skattaðgerðir okkar munu að sjálfsögðu miða að því að leggja sanngjarnar byrðar og tryggja stöðu þeirra sem verst standa um leið og við þurfum að huga að stöðu atvinnulífsins og sköpun hagvaxtar en talið er að til skemmri tíma litið sé betri leið að hækka skatta en að draga of mikið úr útgjöldum því að það muni hafa minni áhrif á hagvöxt.

Ég er með spurningu til hv. ráðherra — (ÓN: Hvað sagðirðu?) nei, hv. þingmanns Ólafar Nordal. Þú talar alfarið gegn eignarsköttum. Við erum sammála um að eignarskattar koma á mjög ósanngjarnan hátt niður, oft á eldra fólki, en ég vil heyra afstöðu hv. þingmanns til stóreignarskatta þar sem við gætum verið að tala um eignir yfir 50–70 milljónum. Er hún alfarið á móti slíkum sköttum líka?