138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu væri það afar æskilegt að hægt væri að halda uppi sem hæstu framkvæmdastigi svo að samdráttur í þeim greinum þar sem hann er tilfinnanlegastur, t.d. í byggingariðnaði, jarðverkum og öðru slíku, yrði minni en ella stefnir í. En veruleikinn er sá að svigrúm bæði ríkis og sveitarfélaga til þess er afar takmarkað. Því eru viðræður við lífeyrissjóðina um að þeir geti þá tímabundið haldið uppi framkvæmdum að þessu leyti og ríki og sveitarfélög dregið sig meira í hlé og sinnt betur þeim verkefnum sem þeir aðilar verða að sinna, sem er að halda uppi nauðsynlegri velferðarþjónustu og grunnrekstri samfélagsins.

Annars er það athyglisvert að mér heyrðist hv. þm. Ólöf Nordal vera að tala fyrir auknum hallarekstri ríkissjóðs, að verið væri að ganga of langt. Það er auðvitað mjög freistandi til skamms tíma litið. Það hefur jákvæð áhrif á hagvöxtinn til skamms tíma litið en það er algerlega ábyrgðarlaust til lengri tíma litið. Þá væru menn að kaupa sér pólitísk þægindi í augnablikinu á kostnað framtíðarinnar og það mun ég ekki gera.