138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:33]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og fara í gegnum nokkrar af þeim stofnanabreytingum sem unnið er að í dómsmálaráðuneyti og fram koma í fjárlagafrumvarpi. Þetta er áform sem koma fram í fjárlagafrumvarpinu en þeim verður fylgt eftir með frumvarpi til breytinga á lögum um viðkomandi stofnanir. Þessi mál eru í vinnslu en ég ætla að gera grein fyrir því hvað er hér átt við.

Héraðsdómstólarnir eru núna átta. Með ráðagerð um einn héraðsdómstól fyrir landið er verið að tala um einn héraðsdómstól fyrir landið allt, þ.e. ein stofnun, og að dómstólaráð ákveði fastar starfsstöðvar dómstólsins. Þarna er ekki verið að ræða um að flytja eigi alla héraðsdómstóla landsins til Reykjavíkur og hafa þar einn héraðsdómstól heldur er einfaldlega verið að tala um eina stofnun með fastar starfsstöðvar um landið.

Dómstólarnir glíma við þann vanda þegar niðurskurður er óhjákvæmilegur að 90% af útgjöldum dómstólanna eru bundin í launum og húsnæði. Það er ákaflega erfitt um vik að hagræða undir slíkum kringumstæðum, einkum og sér í lagi vegna þess að kjararáð ákveður laun dómara og þau hafa nú þegar reyndar verið lækkuð, en þarna gefst þó tækifæri til að hagræða með þeim hætti að stöður dómstjóra eru felldar niður. Það verður einn dómstjóri í stað átta, en ekki er verið að tala um fækkun héraðsdómara.

Hvað varðar lögreglu og sýslumenn vil ég fá að gera Alþingi grein fyrir stöðunni á þeirri vinnu. Í sumar fékk ég tillögur frá starfshópi um að hagkvæmt væri og málefnalegt að hér starfaði lögreglustjóri á landsvísu og umdæmum yrði fækkað í sex til átta. Til að vinna þær breytingar nánar og fá aðkomu þeirra sem starfa að löggæslu hér á landi tóku sæti í starfshópi ráðuneytisins fulltrúar Landssambands lögreglumanna og Lögreglustjórafélag Íslands. Ég lagði áherslu á við starfshópinn að hér væri ekkert ákveðið heldur væri þetta ákveðin hugmynd sem vinna þyrfti nánar. Það er skemmst frá því að segja að starfshópurinn kom til mín fyrir örfáum vikum og greindi mér frá því að ekki gæfist tími til að vinna að svo róttækum tillögum sem lögreglustjóri á landsvísu er heldur var starfshópurinn reiðubúinn að vinna að því að fækka lögregluumdæmum og er þá haldið áfram þeirri vinnu sem hófst fyrir nokkrum árum með sameiningu lögregluumdæma.

Virðulegi forseti. Ég hef lagt áherslu á að vinna þessar tillögur til Alþingis með þeim sem í kerfinu starfa og féllst á að starfshópurinn beindi kröftum sínum í þá átt. Það skilur þó eftir ákveðin vandamál með það að meira en helmingur fjárveitinga er á höfuðborgarsvæðinu og í embætti ríkislögreglustjóra. Það verður að finna leiðir til að þessi tvö embætti hagræði, spari hjá sér með sama hætti og lögregluumdæmum hinum stækkuðu yrði gert að gera og skal eitt yfir alla ganga í þessum efnum. Við höfum það að markmiði að halda uppi almennri löggæslu en minnka yfirbyggingu og það er einmitt það sem getur verið svolítið erfitt, þ.e. að minnka yfirbyggingu, vegna þess að þegar þarf að hagræða þarf að spara. Þá er kannski einfaldast að segja þeim upp sem eru með stystan ráðningarsamning og eru undirmenn einfaldlega. Með þessu móti erum við að segja að það er ekki sársaukalaust að beita umræddri aðferðafræði, að minnka yfirbyggingu eins og kostur er, en með því getum við komist hjá að skerða almenna löggæslu.

Af sama meiði er sú vinna sem miðar að því að fækka sýslumannsumdæmum og embættum. Ég hef útskýrt fyrir öllum sýslumönnum landsins sem héldu aðalfund 24. september þar sem ég gerði grein fyrir hugmyndum ráðuneytisins á þessu sviði og er akkúrat það sama og gildir um lögregluna. Málin eru á ákveðnu vinnslustigi og ég greindi þeim frá því og greini nú þingheimi frá því að hugmyndin sem verið er að vinna að í ráðuneytinu er að fækka sýslumannsembættum í sjö. Þetta hljómar óneitanlega mjög harkalega. Þó ber að hafa í huga að við miðum við að skilja í sundur embætti lögreglustjóra og embætti sýslumanns þannig að fækkun embættanna sjálfra verður ekki eins mikil og ætla mætti í fyrstu.

Það sem er mikilvægt að huga að í sambandi við sýslumannsembætti — fram kom í umræðum í dag að sýslumannsembætti eru mikilvæg fyrir landsbyggðina, þau eru mikilvæg fyrir landið allt, virðulegur forseti, og það sem hefur verið að gerast með sýslumennina er að þar er hinn framlengdi armur ríkisins í héraði. Þetta eru stofnanir ríkisvaldsins, ekki bara dómsmálaráðuneytisins, heldur er það ríkisvaldið allt sem á þessar stofnanir. Það sem við höfum gert í dómsmálaráðuneytinu er að færa verkefni til sýslumanna og það hefur gengið ákaflega vel en okkur hefur fundist að aðrir mættu taka sér það til fyrirmyndar og færa verkefnið til sýslumanna í stað þess að huga jafnvel að því að taka af þeim verkefnið. Þetta teljum við ekki vera góða þróun vegna þess að ef menn eru að tala um að ríkisvaldið verði að hafa stjórnsýslumiðstöðvar, verði að hafa kraft úti um landsbyggðina, þá eru sýslumannsembættin og stofnanirnar sem á að nota í því skyni. Sýslumannsembættin geta verið öflugar stjórnsýslumiðstöðvar. Sýslumannsembætti gegna nú þegar mjög mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir ríkisvaldið og geta tekið að sér fleiri. Af hverju erum við þá að tala um að fækka sýslumannsembættum? Jú, virðulegi forseti. Sum sýslumannsembætti eru einfaldlega það lítil að þau geta alls ekki tekið á sig þá hagræðingarkröfu sem gerð er og þar að auki teljum við að færri sýslumannsembætti með afgreiðslustöðum, eða útibúum eftir því hvað menn vilja kalla það, geti verið mjög öflugar einingar sem einmitt geta tekið að sér fleiri verkefni. Þarna erum við enn að höggva í yfirbygginguna og það er ekki sársaukalaust. En við sjáum fyrir okkur að hægt sé að bjóða sýslumönnum sem mundu þá ekki fá sýslumannsembætti annars konar störf innan í þessu kerfi vegna þess að mikilvægt er að sú þekking sem er fyrir hendi í sýslumannsembættum glatist ekki.

Þetta er í stuttu máli staða málsins. Sýslumannafélag Íslands hefur óskað eftir því að tilnefna fulltrúa í verkefnastjórn sem við ætlum að setja á laggirnar og það er auðsótt mál einmitt vegna þess að við verðum að vinna þetta í samvinnu við þá sem vinna í kerfinu og best þekkja til.