138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en mig langar einnig að nýta mitt seinna andsvar til þess að óska eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um hvernig hún sér fyrir sér að lögreglan fari að því að hagræða hjá sér á komandi ári án þess að segja upp fólki. Er eitthvað annað sem er í spilunum hjá lögreglunni en það og ef svo er, hvernig verður því framfylgt?

Við lifum á tímum þar sem við höfum upplifað á undanförnum missirum að hér hefur verið mikil ólga. Lögreglumenn vinna mikið og óeigingjarnt starf og er gríðarlega mikilvægt að við hlúum að löggæslumálum. Ég óska líka eftir því að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um hvort komið hafi til tals við ríkisstjórnarborðið að láta lögregluna og þann málaflokk falla undir þá málaflokka sem fá minni skerðingu, líkt og nokkrir aðrir málaflokkar sem ríkisstjórnin leggur áherslu á?