138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:49]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þetta sé hárrétt og við hæstv. ráðherra erum áreiðanlega sammála um þetta. Þetta er atriði sem þarf einmitt að fara vel yfir í fjárlagavinnunni, að réttarvörslustofnanir í landinu, dómstólar, saksóknaraembætti, lögregla og fangelsi, þetta eru mikilvæg verkefni og við vitum, eins og ráðherra gat um, að auðvitað er erfitt að ná fram hagræðingu og niðurskurði á þessum sviðum. Ég undirstrika að það verður að fara varlega í þessu.

En ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki sé rétt sem fram kom í máli hv. þm. Unnar Brár Konráðsdóttur áðan, að þegar fyrri ríkisstjórn flokkaði málaflokka eftir því hvaða hagræðingarkrafa væri gerð hafi lögreglu- eða löggæslumálum verið skipað í sama flokk og þeim málum á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu (Forseti hringir.) og kennslu sem fengu lægri hagræðingarkröfu en almennt gilti.