138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held nefnilega og þekki það að það skiptir afskaplega miklu máli að viðkomandi ráðherrar fylgi málum eins og þessum eftir, þetta gerist ekki af sjálfu sér. Ég hvet hæstv. dómsmálaráðherra til að tala við hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er nýr eins og við þekkjum, og fara yfir þetta mál. Sömuleiðis hvet ég þá aðila sem eru í fjárlaganefnd og öðrum þeim nefndum sem um málið fjalla að skoða það sérstaklega hvað liggi til grundvallar þeirri ákvörðun að ríkið færi verkefni frá sýslumönnum.

Það er allt rétt sem hér hefur komið fram hjá hinum ýmsu þingmönnum um mikilvægi sýslumannsembættanna. En ef aðrir ráðherrar eða ríkisstjórnin tekur ákvörðun um að taka verkefni frá sýslumannsembættunum er mjög lítið sem hæstv. dómsmálaráðherra getur gert. Þetta er því hvatning mín til hæstv. dómsmálaráðherra að skoða þetta mál sérstaklega og til þeirra (Forseti hringir.) sem eru í viðkomandi nefndum að skoða þetta varðandi verkefnin til sýslumannanna.