138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur verið ótrúlega rólyndisleg miðað við oft áður. Það rifjar upp fyrir mér þegar við tókum umræðu um fjárlögin fyrir ekki svo mörgum mánuðum síðan, nánar tiltekið í desember á síðasta ári. Þá var öllum orðið ljóst hvert stefndi. Þá voru afgreidd breytt fjárlög, ansi mikið breytt frá því sem lagt var fram nokkrum vikum fyrr. Það var áhugavert að hlusta á bæði hæstv. fjármálaráðherra og þá hv. þingmenn, sérstaklega Vinstri grænna sem nú töluðu, að það er eins og þeir hafi fyrst núna verið að koma til byggða, ef þannig má að orði komast, búnir að átta sig á því í hvaða stöðu Ísland er. Því svo sannarlega fengu þeir sem voru í ríkisstjórn þá og ríkisstjórnarflokkarnir að heyra að það væri mikil ósvinna að láta sér detta í hug að spara ríkisútgjöld þrátt fyrir að aðstæðurnar væru eins og raun bar vitni. Ég man að ég svona fylgdist með þeirri umræðu, úr öðru sæti en ég er nú, og furðaði mig mjög á þessu viðhorfi, því það var eins og það stjórnmálaafl væri ekki í neinum tengslum við raunveruleikann.

Það má kannski segja að það sé gott í þessari umræðu núna að hæstv. fjármálaráðherra og þingmenn vinstri grænna eru í það minnsta komnir á þann stað sem við hin erum hvað varðar stöðu mála, búnir að átta sig á alvöru málsins. Hins vegar er dýrmætur tími búinn að fara til spillis. Við erum að sjá það því miður að ýmis teikn eru á lofti um framkvæmd fjárlaga á þessu ári, sem var afskaplega mikið atriði að mundu halda, en flest sem bendir til þess að þeim sé um margt ábótavant. Það þýðir einfaldlega að halli sem er á stofnunum færist yfir á milli ára. Með öðrum orðum ef það er 10 eða 15 millj. kr. halli á viðkomandi stofnun, þá tekur stofnunin það með sér og mjög langt er í að hægt verði að bæta það upp með fjáraukalögum eins og var gert hér áður. Í ofanálag eftir allan þennan tíma, frá því í febrúar á þessu ári, sem ríkisstjórnarflokkarnir eru búnir að hafa til þess að fara yfir þessi mál, þá eru þessi fjárlög ekki tilbúin.

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að það hefur komið mér mjög á óvart sem hefur kannski verið mest áberandi umræðunni, sem er þessi 16 milljarða skattur sem rætt hefur verið um bæði í fjölmiðlum og hér í þingsal. Það er algjörlega augljóst að þeir sem áttu að útfæra hann eru ekkert búnir að hugsa hvernig hann eigi að vera framkvæmdur. Hér hafa í rauninni komið tilboð frá ráðherrum, bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, um það hvernig skuli framkvæma hann. Í ofanálag þá erum við að sjá það að samkvæmt þessu er miðað við 40 milljarða, 40 þúsund milljóna skattahækkanir á almenning í landinu, 39% hækkun. Þessar skattahækkanir allar eru enn eitt brot ríkisstjórnarinnar á stöðugleikasáttmálann.

Allir vita að það eru erfiðleikar í íslensku þjóðfélagi og við þurfum að vinna okkur út úr þeim. Allir vita að það eru bara tvær leiðir til þess. Það er annaðhvort að spara, með því sem er oft kallað niðurskurður, eða hækka skatta. Það eru tvær leiðir til að hækka skatta. Það er annaðhvort að hækka þá skattstofna sem eru til staðar, og hins vegar að auka skatta.

Um mitt þetta ár, virðulegi forseti, hrósuðu forustumenn ríkisstjórnar sér af því að þeir væru búnir að ná stöðugleikasáttmála. Skrifuðu undir með aðilum vinnumarkaðarins. Þar eru ákveðin atriði sem snúa að því að auka skattana. Auka skattstofnana. Fara í framkvæmdir. Ég er með þennan sáttmála hér þar sem er kafli númer 4 sem heitir „Framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu“. Það er skemmst frá því að segja, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin hefur litið á þetta sem eitthvert plagg sem væri engin sérstök ástæða til þess að fara eftir. Það að ríkisstjórnin skuli ekki fara eftir þessu plaggi eykur vandann gríðarlega. Gríðarlega. Það sýnir okkur kannski betur en nokkuð annað hversu alvarleg staðan er í landsmálunum.

Síðan kemur að sparnaðinum eða niðurskurðinum. Í þessari stuttu ræðu ætla ég lítillega að ræða það sem snýr að málaflokki sem ég ber mjög fyrir brjósti, sem eru heilbrigðismálin. Nú er það þannig, virðulegi forseti, að um leið og ég óska hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiði Ingadóttur, til hamingju með embættið, þá segi ég eins og er að það er kannski ekki mikið sem ég get gagnrýnt hæstv. ráðherra. Hún kemur inn á afskaplega erfiðum tíma og hefur augljóslega ekki komið að framlagningu þessa frumvarps. Það var í tíð fyrirrennara hæstv. ráðherra.

Þegar maður sér þetta frumvarp, þá skilur maður af hverju menn komast að þeirri niðurstöðu að fyrirrennari hennar, hæstv. fyrrverandi ráðherra, hv. þm. Ögmundur Jónasson, hafi flúið af vettvangi, ekki treyst sér í það verkefni að spara í heilbrigðismálum. Því skal þó haldið til haga að bæði hefur hv. þm. Ögmundur Jónasson sem og dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson algjörlega talað gegn þessu og dregið þetta algjörlega til baka. Báðir félagarnir hafa sagt að það sé hrein og klár firra að halda þessu fram. Það er auðvitað eitthvað sem menn verða að taka með í reikninginn, andmæli dr. Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar og hv. þm. Ögmundar Jónassonar.

Staðreyndin er þessi. Við erum hér að fara í það sem flestir sem þekkja til eru sammála um að sé alversta leiðin þegar kemur að sparnaði í heilbrigðiskerfinu. Þetta er flatur niðurskurður. T.d. sagði forstjóri Landspítalans, Hulda Gunnlaugsdóttir, í Morgunblaðinu síðasta mánudag, með leyfi forseta:

„Sá flati niðurskurður sem stefnt er að á Landspítalanum er hættulegur að mati Huldu Gunnlaugsdóttur, forstjóra Landspítalans.“

Við höfum aðeins einn slíkan spítala á Íslandi, sem er öryggisnet fyrir allt landið. Þess vegna verður fyrst að leita allra leiða til að ná heildarhagræðingu í heilbrigðiskerfinu. Hún segist alltaf vera á móti flötum niðurskurði. Það er auðveldasta leiðin, en þá er ekki tekið á vandanum. Hulda Gunnlaugsdóttir, sem og aðrir sérfræðingar á þessu sviði, hafa mælt með því að menn líti á þetta í heildarsamhengi og fari í nauðsynlegar skipulagsbreytingar. Nú hafa menn haft allt árið til þess að fara í slíka hluti.

Eins og ég segi get ég auðvitað ekki verið að gagnrýna hér hæstv. ráðherra, Álfheiði Ingadóttur, en ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé virkilega svo að menn ætli að framkvæma fjárlögin eins og þau liggja fyrir. Er möguleiki á því að menn skoði tillögur færustu sérfræðinga? Við erum að vísu búin að missa afskaplega dýrmætan tíma, en það er þó betra seint en aldrei. Eru menn tilbúnir að skoða það að fara aðrar leiðir? Við erum að sjá hrikalega alvarlega stöðu. Uppsagnir milli 450 og 500 manns á Landspítalanum einum. Sömuleiðis erum við að sjá mjög harða niðurskurðarkröfu á sjúkratryggingar. Ég ræði það nú ekki hér. Ég vil bara fá svar frá hæstv. ráðherra og ég tala fyrir hönd sjálfstæðismanna. Við munum gera allt hvað við getum til að hjálpa hæstv. ráðherra við þetta erfiða verkefni. Það er bara þannig. Það sem ég vil fá að vita: Kemur til greina að endurskoða frumvarpið hvað þessa liði varðar?

Síðan var það hæstv. fjármálaráðherra. Ég get auðvitað gagnrýnt hann alveg eins og ég vil. Dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur ekkert komið honum til aðstoðar. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hlýt að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig má það vera að menn komi eftir allan þennan tíma með tekjuhlið frumvarpsins jafnófullkomna og raun ber vitni? Það er furðulegt að sjá frumvarpið eins og það lítur út og í hverju málinu á fætur öðru og þá sérstaklega varðandi tekjuþáttinn, þá virðist vera eins og menn hafi ekki verið búnir að hugsa þessi mál og hafa svo sannarlega haft nægan tíma til þess. Og ég spyr líka: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að framkvæma þessar gríðarlegu skattahækkanir?