138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra var hér að lýsa flötum niðurskurði. Ef hæstv. ráðherra telur að ekki sé verið að fara í flatan niðurskurð er augljóst að hæstv. ráðherra þarf að útskýra það fyrir t.d. stjórnendum Landspítalans. Ég veit að fáir núlifandi Íslendingar eru betur að sér um heilbrigðismálin en Hulda Gunnlaugsdóttir, sem hefur ekki aðeins stýrt Landspítalanum heldur líka stærri stofnunum á Norðurlöndunum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að lesa viðtalið við Huldu Gunnlaugsdóttur þar sem hún fer nákvæmlega yfir muninn á flötum niðurskurði og því þegar menn fara í skipulagsbreytingar.

Það er ekki auðvelt að takast á við verkefni eins og þetta. Ef það er rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni, hæstv. ráðherra Álfheiði Ingadóttur og dr. Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi ekki flúið af vettvangi þá skildi hann ekki eftir sig gott frumvarp. Hann skildi ekki eftir sig gott bú, það liggur fyrir.

Hugmyndir forstjóra Landspítalans eru á þann veg að við nýtum þá aðstöðu og fjármuni sem við eigum til staðar í íslensku heilbrigðisþjónustunni með sem allra bestum hætti. Það þýðir oft að við mundum færa verkefni á milli. Það er auðvitað ekki auðvelt en þó það besta sem við getum gert til að halda uppi þjónustustiginu. Þessi forstjóri bendir á að sú leið sem á að fara í frumvarpinu skaði öryggisnetið. Hún bendir á að nú erum við í þriðja sæti þegar kemur að gæðum heilbrigðisþjónustu. Við munum fara eitthvað neðar (Forseti hringir.) en ef við förum þessa leið mun það hafa mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér.