138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við munum örugglega ræða hér um aðdraganda hrunsins, hver sagði hvað og hver sá þetta fyrir o.s.frv. Við höfum nægan tíma til þess og verðum að gera það.

Ég ákvað, því mér fannst hæstv. ráðherra ekki tala skýrt, að líta á þetta sem opnun, að hæstv. ráðherra sé tilbúin til þess að fara yfir þessi mál með það að markmiði að við göngum þannig frá að þjónustan muni skerðast eins lítið og mögulegt er. Hæstv. ráðherra kinkar kolli. Ég lýsi því þá yfir að ég er tilbúinn til þess að leggja allt á mig sem ég mögulega get, og það á sama við um félaga mína í Sjálfstæðisflokknum, til að vinna nauðsynlega vinnu og styðja við ráðherrann í nauðsynlegum ákvörðunum og aðgerðum til þess að (Forseti hringir.) halda uppi þjónustustiginu.