138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þá höfum við nokkrar af hugmyndum hans, að sameina skurðstofur á höfuðborgarsvæðinu og fækka heilbrigðisstofnunum úti á landi. Það verður spennandi að heyra fleiri tillögur í síðara andsvarinu því ekki veitir af góðum tillögum í þeirri vinnu sem fram undan er. Ég vil ekki gera lítið úr því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi unnið að því að koma upp því velferðarsamfélagi sem við búum í með öðrum stjórnmálaflokkum í landinu en þeim mun sárgrætilegra hefur verið að hlýða á málflutning flokksins núna í mesta niðurskurði í ríkisútgjöldum sem við höfum þurft að fara í gegnum í lýðveldissögunni. Þetta er fyrsti þingmaðurinn sem ég heyri hafa áhyggjur af þeim þætti frumvarpsins. Allir aðrir sem ég hef heyrt tjá sig um það úr hans röðum hafa að því er virðist einvörðungu haft áhyggjur af skattlagningunni sem er nú fyrst og fremst að færast til þess horfs sem hún var í áður. Það er sannarlega lítið áhyggjuefni við hliðina á (Forseti hringir.) niðurskurði í heilbrigðisþjónustu og öðrum þáttum velferðarþjónustunnar.