138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af skattlagningunni. Það verður engin velferð í þjóðfélaginu ef ekki er verðmætasköpun. Ef menn ætla að skattleggja hvort sem er einstaklinga eða fyrirtæki þannig að þau geti ekki starfað eða fari til annarra landa höfum við ekkert á milli handanna til þess að halda uppi velferðarkerfinu. Það er mjög mikilvægt að menn hafi þetta samhengi algjörlega á hreinu.

Ég setti fram hugmyndir og ýtti vinnu af stað við að fara í sameiginleg innkaup fyrir heilbrigðisstofnanir og þá í samvinnu við heilbrigðisstofnanir á Norðurlöndunum. Ég nefndi sameiningu stofnana og svo að því sé til haga haldið fylgdi eftirmaður minn því eftir varðandi Vesturland. Ég var með hugmyndir varðandi lækkun á lyfjakostnaði, en hann var mjög hár hér, og mig minnir að í minni tíð hafi ég náð þeim kostnaði á ársgrundvelli niður um einn og hálfan milljarð. (Forseti hringir.) Þar má þó gera betur og (Forseti hringir.) annað er hægt að nefna.

Aðalatriðið er að menn verða að þora að taka ákvarðanir (Forseti hringir.) sem hafa það að markmiði að viðhalda þjónustustiginu, þótt þær séu erfiðar, því við viljum hafa heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða.