138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir að leggja orð í belg og greina okkur frá því hvernig hann sér þetta fjárlagafrumvarp fyrir sér. Hann gerði að umtalsefni í stórum hluta ræðu sinnar tekjuhlið frumvarpsins og þá skatta sem lagt er til að lagðir verði á atvinnulífið í formi orkuskatta og kolefnisskatta.

Nú hafa furðulegar upplýsingar birst okkur í fjölmiðlum um það hvaða ráðherrar vissu af þessu og hverjir ekki. Einnig hefur verið mjög misvísandi túlkun á því hvað hér er átt við. Jafnframt hefur komið fram hjá sumum hæstv. ráðherrum í fjölmiðlum að það dæmi sem tekið er í kynningu með fjárlagafrumvarpinu sé út úr korti.

Þess vegna fýsir mig að vita hvernig hv. þingmaður sér fyrir sér þessa skatta. Hvaða prósentur er verið að tala um? Hvernig verður útfærslan? Jafnframt væri þá gott að fá að heyra það hvaða áhrif slík skattlagning mun hafa á þau fyrirtæki sem hér starfa og eru hér nú þegar. Og eins hvaða áhrif slík skattlagning kemur til með að hafa á þá möguleika sem við höfum til þess að laða að okkur ný fyrirtæki, ný tækifæri og ný störf.

Að þeim spurningum svöruðum langar mig til þess að hv. þingmaður upplýsi okkur um það: Hver er atvinnustefna ríkisstjórnarinnar? Hvernig á að fjölga hér störfum? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að fólkið í landinu komist út á vinnumarkaðinn þeir sem hafa tapað atvinnu sinni?