138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég vil segja það um tillögur sjálfstæðismanna um skattlagningu á lífeyrisiðgjöldum sem formaður efnahags- og skattanefndar að ég hyggst taka þær til umfjöllunar í nefndinni og kalla til alla þá aðila sem um málið geta fjallað og til þess lagt og gefa því einfaldlega þá málefnalegu umfjöllun sem þær tillögur eiga skilið. Auðvitað kann þetta að vera eitthvað sem gæti þurft að líta til.

Um það að skattleggja okkur út úr vandanum, þó að það sé að sínu leyti rétt þá er samt óhjákvæmilegt að líta til þess að ef við ekki leggjum á skatta fyrir því sem við erum að gera, þá er hallinn á ríkissjóði slíkur að það verða engin skilyrði til þess að lækka vexti í landinu. (Forseti hringir.) Ég held þess vegna að það að skattleggja sé sannarlega hluti af því að vinna okkur út úr vandanum og lækka hér vextina.