138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni er varðandi þessa 16 milljarða vísað til orku-, auðlinda- og umhverfisgjalda. Það er rétt að raforkan er auðvitað býsna breiður stofn ef lagður er á hana skattur eins og tekið er dæmi um í greinargerð með frumvarpinu, sem hefur augljóslega misskilist þannig að eina hugmyndin undir þessum lið væri að leggja 16 milljarða skatta á rafmagnið. Svo er auðvitað ekki enda hafa fjármálaráðherra og iðnaðarráðherra nefnt tölur sem ég hygg að séu nokkuð nær veruleikanum.

Auðvitað er fleira en raforka og eitt af því sem horft hefur verið sérstaklega til, og raunar fjallað um á vettvangi fyrri ríkisstjórna, er að við ættum að skilgreina kolefnislosun af ýmsum orkugjöfum sem eru notaðir bæði til einkanota og ekki síður í atvinnulífi. Það ætti að koma skattur fyrir þá mengun sem af þeirri orkunotkun hlýst og þeim hnattrænu áhrifum sem af því verða, ekki með ósvipuðum hætti og er að gerast í viðskiptum með losunarheimildir á evrópska markaðnum t.d. þar sem menn þurfa að kaupa sér heimildir til þess að fá að menga. Við mundum skilgreina ákveðinn hluta af sköttunum með þeim hætti. Þetta eru tvö dæmi sem gætu fallið hér undir. Þau eru auðvitað fjölmörg en þessi gætu varðað talsverðar fjárhæðir.