138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að manni er orðið ljóst eftir að hafa hlustað á þær umræður sem hafa farið fram á síðustu viku að hugarórarnir sem eru reifaðir í fjárlagafrumvarpinu eru fráleitt eina hugmyndin sem er uppi á borðinu. Þær hafa verið margar og eru flestar því marki brenndar að þær ganga ekki upp því að þær ganga yfirleitt út á að reyna að tryggja að þessi skattlagning komi ekki við nokkurn mann, eftir því sem manni helst skilst.

Ég skal játa að þegar maður les texta í fjárlagafrumvarpi eins og hér er á bls. 205, með leyfi forseta:

„Hér er um stóran gjaldstofn að ræða, sem getur gefið miklar tekjur.“

Þá áttar maður sig á því að þarna er skattmann sjálfur kominn á kreik og sér fyrir sér mikla möguleika á að auka skattlagningu sína. Ég virði þó að hæstv. ríkisstjórn hefur sett þessa hugmynd á flot án þess að útfæra hana og án þess að vita í rauninni (Forseti hringir.) nokkuð um það hvernig hún ætti að líta út. Það er út af fyrir sig hluti af þeim vanda sem við glímum við, að fjárlagafrumvarpið er ófullburða að þessu leyti.