138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:06]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem fram hefur farið hér í dag og vil sérstaklega hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir mikla viðveru hér í salnum. Ég er mjög ánægð að sjá hann hér undir minni ræðu.

Það verkefni sem fyrir okkur liggur, öllum alþingismönnum, er erfitt. Að sjálfsögðu er erfitt að setja saman fjárlagafrumvarp við þær aðstæður sem hér eru. Engu að síður þarf að gera það og það þurfa að vera nokkuð skýrar línur um hvað á að gera. Nú þegar er t.d. komin ólga á landsbyggðinni varðandi þau hlutföll sem landsbyggðarmönnum virðist vera á þeim niðurskurðaraðgerðum sem á að fara í. Þetta er alvarlegt atriði og sem ber að fjalla aðeins um.

Nú má það ekki vera svo að þeir sem búa á landsbyggðinni líti þannig á og fái á tilfinninguna að það eigi að ganga harðar að landsbyggðinni en réttlætanlegt er. Vissulega er veturinn fram undan harður og við eigum öll eftir að finna fyrir því að hér er niðurskurður. Það er alveg sama hvaða flokkur væri hér við völd, landsmenn allir mundu finna fyrir því á eigin skinni að hér er mikill niðurskurður í gangi. Það er því enginn ofsæll af því að vera ráðherra í dag, hvað þá fjármálaráðherra.

Ég tel mjög mikilvægt þegar farið er í svo viðamiklar niðurskurðaraðgerðir að hreinar og skýrar línur liggi fyrir um hvaða stefna liggi þar að baki og hvaða markmið er horft til að náist með þeim niðurskurði. Ég get ekki fundið því stað í því fjárlagafrumvarpi sem hér er lagt fram að slík stefna hafi verið mörkuð fyrir fram. Því miður, ég get ekki séð það. Ef ég stjórnaði mundi ég horfa til þess við hverja einustu ákvörðun sem tekin væri varðandi tillögur til niðurskurðar að horft yrði til öryggis landsmanna, ég tel að það sé mjög mikilvægt atriði. Þar vil ég sérstaklega nefna mál eins og löggæslumál, heilsugæsluna og grunnþjónustu í menntakerfinu.

Ég sé að í þessu plaggi er lögð áhersla á kynja- og hagstjórn. Það er svo sem ágætt fyrir þá sem eru hrifnir af því en ég sé engin önnur atriði sem lögð er sérstök áhersla á, önnur en að lækka laun og hækka skatta. Ég kalla því eftir því að hæstv. fjármálaráðherra upplýsi mig um hvaða grundvallarsjónarmið liggja hér að baki um það hvernig hagræðingarkröfunni er skipt á milli málaflokka. Hvaða sjónarmið voru höfð að leiðarljósi?

Ég fagna því sérstaklega að sjá að félagsmálaráðherra er genginn hér í salinn þar sem hluti af ræðu minni mun beinast að ákveðnum sjónarmiðum sem hæstv. ráðherra hefur haft uppi.

Við sjálfstæðismenn lögðum fram viðamiklar efnahagstillögur í sumar en þær fengu því miður ekki framgang hér á þinginu, því miður vegna þess að þær voru ítarlegar og höfðu skýr markmið að leiðarljósi. Nú fyrir stuttu lagði hæstv. félagsmálaráðherra fram aðgerðir til að aðstoða skuldsett heimili. Í fjárlagafrumvarpinu sem kom í loftið örfáum dögum seinna eru hins vegar lagðar til þvílíkar skattahækkanir til handa íslenskum fjölskyldum að ég efast um að sú von sem fjölskyldurnar eygðu við hinar ágætu tillögur félagsmálaráðherrans dugi þegar horfst er í augu við þær gríðarlegu skattahækkanir sem koma til með að leggjast á heimilin.

Varðandi atvinnulífið hefur flestöllum þingmönnum orðið mjög tíðrætt um þá skatta sem á að leggja á það og er það skiljanlegt þar sem atvinnulífið í dag hefur ekki staðið mjög sterkt. Okkar helsta markmið í dag á að vera að fjölga þeim atvinnutækifærum sem mögulegt er að koma á koppinn, það er gríðarlega mikilvægt. Margir erlendir aðilar horfa hingað til lands með það að markmiði að koma hingað með erlent fjármagn og fjárfesta. Þau verkefni tengjast flest orkufrekum iðnaði, við verðum einfaldlega að horfast í augu við það. Við Íslendingar eigum gríðarlegar auðlindir. Við eigum að nýta þær vel en við eigum að nýta þær til þess að skapa störf. Það gerum við ekki með því að viðhalda óvissu um það skattaumhverfi sem þessum fyrirtækjum er búið, hvernig umhverfismati er háttað o.s.frv. Við eigum öll að leggjast á eitt við að skapa þær aðstæður að þau tækifæri sem liggja í loftinu verði að veruleika. Ég hef áhyggjur af því að því miður sé það ekki þannig.

Jafnframt tengjast gríðarlega mörg tækifæri starfsemi í heilbrigðisgeiranum. Við eigum mikla sérfræðinga á því sviði og við eigum einfaldlega að selja okkar þjónustu og opna leiðir til þess að erlendir einstaklingar sem þurfa á þjónustu að halda sjái hag sinn í því að koma hingað til að fá bót sinna meina. Það verður okkar stóriðja og bætir virkilega í flóruna sem við höfum hér.

Í fjárlagafrumvarpinu er jafnframt talað um fækkun sýslumannsembætta. Hæstv. dómsmálaráðherra blandaði sér í umræðuna og ég hrósaði henni sérstaklega fyrir að hún er eini fagráðherrann að mínu viti sem hefur tekið til máls í umræðunni í dag og það er til fyrirmyndar. Hæstv. ráðherra fór yfir þá þætti sem snúa að hennar embætti í þessu fjárlagafrumvarpi.

Varðandi sýslumannsembættin kom fram í umræðunni að þau væru að veikjast vegna krafna eða ásælni ýmissa aðila í þau verkefni sem sýslumannsembættin sinna. Þar á meðal var minnst á umboð Tryggingastofnunar. Þar sem hæstv. félagsmálaráðherra er í salnum óska ég eftir því að hann komi í andsvar við mig og útskýri hvort það sé rétt að til standi að færa umboð Tryggingastofnunar frá sýslumannsembættunum og þá rökstyðja það hvers vegna það sé lagt til. Á sýslumannsembættunum er mikill mannauður. Þetta eru embætti sem sinna ákveðnu svæði, þar er mikil staðþekking og þar að auki hafa þessi embætti komið gríðarlega vel út úr þjónustukönnunum þannig að þar er veitt góð þjónusta. Ég þekki ágætlega til þessa embætta víðs vegar um landið, er gamall starfsmaður og hef verið í sambandi við þau flest í mínu fyrra starfi, og tel að þar hafi verið mikil ánægja og tekist vel til, sérstaklega varðandi umboðið fyrir Tryggingastofnun. Mig fýsir því að vita hvort það sé rétt að þetta sé í umræðunni af hálfu félagsmálaráðherra og fá þá rökin fyrir því.

Jafnframt var komið inn á varðandi þetta sama mál að sveitarfélögin ásældust ýmis verkefni sem liggja hjá sýslumannsembættunum. Ég veit ekki til þess að það sé rétt. Samkvæmt mínum upplýsingum eru þetta rangar upplýsingar, sveitarfélögin hafa ekki verið að því.

Hæstv. forseti. Við lifum á erfiðum tímum og ég nefndi áðan að það er ekki einfalt verkefni að skera niður og finna leiðir til að stoppa upp í fjárlagagatið. Hins vegar tel ég mjög mikilvægt að við leggjumst öll á eitt og viðhöfum þau vinnubrögð að leita samráðs, ekki bara milli stjórnarflokkanna heldur jafnframt við stjórnarandstöðuna.

Á þing settust 27 nýir þingmenn í vor. Þeir flokkar sem nú skipa ríkisstjórnina töluðu fjálglega um að hér yrðu viðhöfð ný vinnubrögð varðandi samráð og samstarf af ýmsu tagi. Ég kannast ekki við að hafa séð þau vinnubrögð. Í andsvari mínu við hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson fyrr í dag kom fram að sá hv. þingmaður, sem jafnframt er nýr á þingi, er sammála mér um það og hann er í ríkisstjórnarflokki. Það væri því ágætt ef hæstv. fjármálaráðherra gæti gefið sér tíma í að koma í andsvar við mig á eftir og upplýsa mig um í hverju þessi nýju vinnubrögð eru fólgin. Mikið hefur verið talað um þetta og ég kalla eftir því að þetta verði upplýst.

Hæstv. forseti. Það er hlutverk okkar stjórnmálamanna m.a. að veita fólkinu í landinu von og tala kjark í íslensku þjóðina. Ég hef fulla trú á að við komumst upp úr þessari efnahagslægð og ég tel að við höfum alla burði til þess að gera það hratt og örugglega. Hvað gerist hér í þinginu á komandi vikum er gríðarlega mikilvægt. Það er mjög mikilvægt að við náum tökum á ríkisfjármálunum og að endurreisn bankanna verði hraðað eftir föngum. Þetta hljómar eins og gömul tugga, þar sem ég held að ég hafi sagt þetta í hverri einustu ræðu sem ég hef flutt hér frá því að þing byrjaði í vor, en enn sést ekki fyrir endann á því verkefni. Ég hef hins vegar trú á íslensku þjóðinni. Við erum vel menntuð þjóð, við eigum eitt sterkasta lífeyrissjóðakerfi í heimi og þjóðin er tiltölulega ung þannig að við eigum framtíðina fyrir okkur. Ég hef fulla trú á því að ef við sem störfum í stjórnmálum á Íslandi í dag stillum saman strengi okkar og tölum saman í alvöru, ekki bara í orði heldur líka á borði, höfum við alla burði til þess að komast upp úr þessari efnahagslægð fljótt og vel, Íslandi öllu til heilla.