138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir andsvar hans og þau orð sem féllu varðandi landsbyggðina. Það er nauðsynlegt að tala upphátt og opinskátt um hlutina. Þetta er einfaldlega sú tilfinning sem þeir hafa sem á landsbyggðinni búa. Ég var sjálf sem þingmaður Suðurkjördæmis á fundi í Vestmannaeyjum í vikunni vegna þessara mála. Ég veit til þess að það var fundur uppi á Akranesi varðandi orku- og umhverfisskattana á morgun. Víðast hvar um land eru atvinnurekendur og sveitarstjórnarmenn gríðarlega uggandi um þessar aðgerðir allar. Það er einfaldlega vegna þess að óvissan er svo mikil. Þessu er kastað fram án þess að neinar skýringar fylgi.

Það sem komið hefur fram í umræðunni í dag varðandi sýslumannsembættin þá liggur einfaldlega ekki fyrir hvaða hagræðing er fólgin í þessum aðgerðum. Það er bara eins og það sé tekin ákvörðun fyrir fram án þess að fyrir liggi að það komi til með að skila árangri. Það er þetta sem veldur óvissu og það er þetta sem veldur þeirri tilfinningu hjá ráðamönnum víðast hvar um landið og sveitarstjórnarmönnum að verið sé að nota tækifærið til að fara í þessa fækkun vegna þess hvernig ástandið er, ekki vegna þess að það komi til með að skila árangri hvað varðar hagræðingu.

Síðan er algerlega ósvarað þeirri spurningu hvert þjónustustigið á að vera, hvernig ríkisstjórnarflokkarnir sjá fyrir sér að þjónustustigið verði á næstunni eftir þennan niðurskurð. Það er þess vegna sem óvissan er mikil.

Hvað snertir löggæsluna þá langar mig jafnframt að fjármálaráðherrann upplýsi mig í síðara andsvari sínu hvort hann sjái fyrir sér að þær aðgerðir sem verið er að fara í á næsta ári varðandi löggæsluna og þessar sameiningar komi til með að skila hagræðingu vegna þess að að mínu viti koma þær ekki til með að gera það.