138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ekkert ofmælt sem sagt hefur verið um fjárlagagerðina núna að í henni eru engir kostir góðir. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að hér hefur orðið hrun í tekjum ríkisins og það hefur líka orðið útgjaldasprengja sem er afleiðing af bankahruninu eins og við vitum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að vandi hæstv. ríkisstjórnar er mjög mikill og það er ekki auðvelt að koma saman fjárlögum við slíkar aðstæður. Auðvitað er það alveg rétt sem hefur verið sagt að aðferðirnar við þetta eru gamalkunnar. Það er það að reyna að afla nýrra tekna með einhverjum hætti og síðan að fara í aðhaldsaðgerðir eins og menn framast geta leyft sér.

Vitaskuld er það þannig að enginn verður ósnortinn í þessum efnum. Það á bæði við um framkvæmdahliðina og líka þjónustuliðina og rekstrartilfærslurnar o.s.frv. Ég held að við getum sparað okkur heilmikla umræðu með því að viðurkenna að þannig er þetta í grunninn. En það er hins vegar mjög mikilvægt í þessu sambandi að við reynum að skoða þetta í samhengi og reynum að átta okkur á því hvort það sé eðlilega borið niður til að mynda við niðurskurðinn þegar við förum yfir þessi mál.

Við þekkjum það í gegnum tíðina að það er auðveldara að koma því við að skera niður framkvæmdir en rekstur. Eins og við vitum byggist reksturinn mjög mikið á launatekjum fólks og þess vegna er reksturinn miklu viðkvæmari fyrir því þegar niðurskurðarhnífnum er brugðið á loft. Því hefur það oft verið þrautaráðið eins og við þekkjum að ráðast frekar á framkvæmdirnar en reksturinn. Það er augljóst mál þegar við skoðum það fjárlagafrumvarp sem hér liggur fyrir okkur að þar hafa menn gengið mjög rösklega til verks, svo ekki sé meira sagt, þegar kemur að framkvæmdahliðinni sjálfri. Hér er ég sérstaklega að vísa til vegamálanna sem oft eru rædd í þingsölum og menn hafa miklar skoðanir á sem eðlilegt er. Það þarf ekki að rýna mjög djúpt til að átta sig á því að í þessu fjárlagafrumvarpi er búið að taka pólitíska ákvörðun af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um að þurrka nánast út öll áform um frekari nýframkvæmdir á næsta ári. Við vitum að mjög var dregið úr útboðum á þessu ári, ég spurði hæstv. ráðherra um það síðla sumars og þá kom auðvitað á daginn að það hefur verið mjög lítið um útboð á þessu ári. Eins og ég sé fjárlagafrumvarpið birtast okkur þá finnst mér það blasa algerlega við að á næsta ári verða engar nýjar framkvæmdir boðnar út sem ná máli. Ef við skoðum þær tölur sem núna liggja fyrir okkur í fjárlagafrumvarpinu og skoðum þær í sögulegu samhengi þá er það einfaldlega þannig að upphæðir til nýframkvæmda á þessu ári verða þær minnstu á þessari öld. Það er ekkert flóknara en það.

Ég er ekki að gera lítið úr þeim vanda sem við er að glíma en hins vegar sjá auðvitað allir að hérna hefur verið með algerlega óeðlilegum hætti ráðist á vegamálin langt umfram það sem er að gerast í öðrum útgjaldaliðum fjárlagafrumvarpsins. Það er auðvitað himinhrópandi þörf á uppbyggingu í samgöngumálum víða um land. Það þarf í raun og veru ekkert að orðlengja það. Það blasir svo algerlega við. Það er þörf á því t.d. víða á landsbyggðinni hreinlega að byggja upp vegi sem ekki einu sinni geta gegnt því nafni að vera kallaðir vegir miðað við þær kröfur sem nútímasamfélag gerir. Það eru heil landsvæði sem má heita að séu samgöngulaus í þeim skilningi eins og til að mynda sunnanverðir Vestfirðir. Við vitum líka að það er kallað mjög eftir framkvæmdum í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. Sem betur fer hefur okkur tekist á undanförnum árum að ná heilmiklum árangri á þessum efnum og það er alveg rétt sem hæstv. samgönguráðherra hefur oft verið að minna okkur á að framkvæmdastigið í samgöngumálum hefur verið gríðarlega mikið á undanförnum árum. Hins vegar var það svo að hæstv. ríkisstjórn ákvað á liðnu sumri að heimila ekki að flytja fjárveitingar sem óhafnar væru í samgöngumálum á milli ára. Það þýddi að við höfum núna 4 milljörðum minna úr að spila til nýframkvæmda í vegamálum eingöngu vegna þessarar ákvörðunar. Þetta er gífurleg upphæð sem auðvitað mun taka verulega í.

Ég fullyrti áðan að engar nýframkvæmdir sem ná máli yrðu boðnar út á næsta ári. Í dag eru sem betur fer í gangi stórar framkvæmdir eins og t.d. Bræðratunguvegur, Bolungarvíkurgöng, Héðinsfjarðargöng og Suðurstrandarvegur sem taka auðvitað til sín gífurlega mikið fjármagn. Og þegar það blasir við sem má lesa út úr fjárlagafrumvarpinu að við verðum með innan við 9 milljarða kr. til nýframkvæmda og við setjum það í samhengi við kostnaðinn við þessar stóru framkvæmdir og aðrar þær framkvæmdir sem eru í gangi þá sýnist mér að þetta geti ekki leitt til annars en þess að við munum ekki sjá neinar nýframkvæmdir sem ná neinu máli á næsta ári.

Vísað hefur verið til þess að þessu verði öllu saman reddað með lífeyrissjóðunum. Lífeyrissjóðirnir ætli að koma að því að kosta framkvæmdir sem einkanlega verða á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki að lasta það. Það er út af fyrir sig ánægjulegt ef hægt er að halda uppi einhverju framkvæmdastigi með því móti. En þá verð ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær er líklegt að einhverjar þessara framkvæmda geti hafist? Er t.d. möguleiki, einhverjar líkur á því að einhverjar þessarar framkvæmda hefjist á þessu ári? Eins og ég hef skilið málið ganga allar þær hugmyndir sem verið er að tala um, hvort sem það eru Vesturlandsvegur, Sundabraut, Suðurlandsvegur, Vaðlaheiðargöng eða hvaða aðrar vegaframkvæmdir sem við erum að tala um, út á það að þær verði fjármagnaðar með framlagi lífeyrissjóðanna sem fái þetta síðan greitt til baka með veggjöldum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér það sem ég hef lesið út úr umræðunni að allar þessar framkvæmdir eigi að lúta að því að þar eigi að innheimta veggjöld til að standa undir þessari fjárfestingu. Og í öðru lagi, sem ég nefndi áðan, hvenær þessar framkvæmdir geta hafist. Ég vil þá líka árétta það að hæstv. ráðherra svari því sem ég fullyrti að ekki yrðu neinar nýframkvæmdir á næsta ári.

Þetta er auðvitað mjög alvarleg staða. Ég nefndi auðvitað áhrifin á einstakar byggðir og atvinnulífið þar. Við höfum fengið nánast neyðarkall frá suðvestanverðum Vestfjörðum, frá atvinnulífinu þar vegna þess að nú stendur fyrir dyrum að draga mjög úr vetrarþjónustunni með því að fækka ferðum Baldurs yfir Breiðafjörð á sama tíma og allt er í frosti varðandi hugmyndir um frekari uppbyggingu á vegamálum inn á þetta svæði sem er þó verst sett af öllum landsvæðum á Íslandi. Þess vegna er þetta auðvitað gífurlega mikið áhyggjuefni fyrir þessar byggðir og fyrir atvinnulífið á þessum svæðum.

En þetta er líka mikið áhyggjuefni að öðru leyti að þetta skyndilega alkul sem virðist vera að eiga sér stað núna í vegamálum getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir ýmislegt annað. Verktakar leggja upp laupana. Ég heyrði tölur um það í gær að mannafli í mannvirkjagerð hefði dregist saman úr 18 þús. í 4 þús. núna á einu ári. Jafnvel þó við tækjum tillit til þess að það var óeðlilegt ástand þegar 18 þús. manns unnu við þessa atvinnustarfsemi og sögðum eðlilegt að tala um 10–12 þús. manns þá er þetta gífurlegur samdráttur. Við sem þekkjum til á landsbyggðinni, eins og ég og t.d. hæstv. samgönguráðherra, vitum það mjög vel að núna eru litlu verktakafyrirtækin hægt og hljótt að leggja upp laupana, þau hafa ekki verkefni. Ég talaði um daginn við verktaka sem rekið hefur stórt og myndarlegt verktakafyrirtæki og hann er farinn að keyra mjólkurbíl vegna þess að hans bíða engin verkefni. Menn sjá ekkert fram á veginn. Þannig munu mikil verðmæti glatast í þessum fyrirtækjum. Mikil þekking sem hefur verið að byggjast upp í þessum iðnaði mun glatast. Og síðast en ekki síst hef ég miklar áhyggjur ef hættan er sú að þessi þróun muni að lokum stuðla að fákeppni. Ef þau áform sem menn eru með um lífeyrissjóðaframkvæmdirnar ganga eftir á annað borð, hvenær sem þær munu þá ganga eftir, þá munu þær framkvæmdir ekki henta þessum minni verktakafyrirtækjum. Við munum þess vegna sjá æ færri verktaka bjóða í þessi stóru verk. Þess vegna er hættan sú að þær stuðli að fákeppni sem síðan muni þrýsta upp verðinu.

Ofan á allt þetta eru líka áform uppi um að skerða vetrarþjónustu eins og boðað hefur verið og greint hefur verið frá mjög víða sem er líka mjög alvarlegt. Vetrarþjónustan gerir það að verkum eins og hún er stunduð í dag að menn geta stundað atvinnustarfsemi milli sveitarfélaga. Þetta er auðvitað forsendan fyrir því að hægt sé að draga að aðföng fyrir fyrirtæki og koma framleiðsluvörunum frá sér o.s.frv. Þetta er líka mjög alvarlegt.

Virðulegi forseti. Ég vildi í þessari ræðu minni eingöngu snúna mér að vegamálunum vegna þess að þetta er mjög stórt mál og alvarlegt og staðan að mínu mati grafalvarleg eins og hún blasir við.