138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:08]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Samstarfið og samtalið milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar frá því í sumar er allt í uppnámi. Stöðugleikasáttmálinn er kominn á grafarbakkann út af fjölmörgum ástæðum, út af eiginlega öllu sem í stöðugleikasáttmálanum var. Það er staðreyndin. Meira að segja Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, er að missa þolinmæðina gagnvart þessari ríkisstjórn og þá er mikið sagt. En hvað um það.

Ég ætla að varpa nokkrum spurningum fram til hv. þm. Jónínu Rósar Guðmundsdóttur. Mig langar til að draga það fram að mér finnst margt gott sem kom fram hjá henni um rekstur ríkisins en það verður að gera sér grein fyrir því að það er mikið samhengi milli ríkisins og atvinnu manna úti á markaði. Þótt ríkið muni fljótt og vel komast í gegnum vandann þá er ríkið ekkert eyland hér þegar búið er að leggja niður atvinnu manna um allt land. Það verður að gera sér grein fyrir því að atvinnulífið nærir þetta samfélag og það verður að taka með í reikninginn þegar verið er að skoða rekstur ríkisins. Þetta er ekkert eitt og stakt.

Mig langar til að fá fram sjónarmið hv. þingmanns hvað varðar rekstur ríkisins. Hv. þingmaður fór nokkuð í það hvernig hún vildi sjá breytt vinnubrögð í slíkum hlutum og horfa kannski dálítið öðruvísi á hlutina en gert hefur verið. Ég get alveg tekið undir þetta og vil í því sambandi spyrja hv. þingmann að því hvort henni finnist koma til greina að skoða málið þannig að núllstilla dálítið fjárlagagerðina, þ.e. að velta því fyrir sér við þessar aðstæður hvaða verkefni er nauðsynlegt fyrir ríkið að sinna, hvaða grunnverkefni það eru sem þarf að vernda og skoða þá jafnvel sparnað út frá því hvað það er sem ríki gæti algerlega klipið frá í stað þess að líta til niðurskurðar í ákveðnum greinum, viss prósentustig, líta á málið alveg heilt og velta fyrir sér hvort við þurfum á þessu að halda eða þurfum við á einhverju öðru að halda. Ég held að við eigum að nota tækifærið og gera akkúrat það.