138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:10]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Auðvitað hafa allir þingmenn ákveðnar áhyggjur af stöðugleikasáttmálanum. Við vitum alveg að forsendur hafa breyst frá því að hann var gerður í sumar. Það er bara þannig að við höfum áhyggjur af því og að sjálfsögðu verja menn eins og forseti ASÍ sína launþega. Þannig er lífið og mér finnst það bara mjög eðlilegt. Mér fyndist óeðlilegt annað en að forsvarsmenn vinnumarkaðarins mundu standa upp og hafa hátt. Að sjálfsögðu gera þeir það.

Mér þætti líka gaman að fá að heyra frá hv. þingmanni hvernig hún teldi eðlilegt að við verðum stöðugleikasáttmálann. Hvaða aðgerðir sér hv. þingmaður til þess í raun og veru að verja stöðugleikasáttmálann?

En í sambandi við breytt vinnubrögð við fjárlagagerðina og opinberar stofnanir þá er ég algerlega sammála hv. þingmanni í því að það væri út af fyrir sig hægt að skoða fjárlagagerðina upp á nýtt. Ég er að vísu svolítið hrædd við það í því árferði sem er núna en um leið og við förum að komast upp úr öldudalnum finnst mér mjög eðlilegt að við í raun og veru hugsum fjárlagagerðina alveg upp á nýtt, hver eru grunnverkefni ríkisins og hins opinbera og gera fjárlögin út frá því. Það hefði verið mjög gott ef það hefði verið tækifæri til þess að vinna þau í meira samstarfi, bæði að allir ráðherrar hefðu getað komið að þeim og stjórnarandstaðan og fleiri aðilar.

En þar sem við stöndum nú í rústabjörgun eftir mikið óveður sem geisað hefur í efnahagslífi þjóðarinnar þá erum við kannski ekki í því að segja að okkur fyndist að við ættum að gera þetta svona eða ættum kannski að gera þetta hinsegin heldur verðum við að taka ákveðna línu.